Körfubolti

Logi: Þetta verður svakaleg úrslitakeppni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Gunnarsson, skotbakvörður Njarðvíkur, verður í eldlínunni með félögum sínum í kvöld þegar Njarðvíkingar taka á móti Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfubolta.

„Þetta er bara skemmtilegasti  tíminn. Þó maður hafi verið í mörg ár erlendis eru það alltaf íslensku úrslitakeppnir sem standa upp úr eftir ferilinn því þar er maður að spila á móti strákum sem eru með manni í landsliðinu og eru góðir félagar. Þetta er sérstakur tími,“ segir Logi við Vísi.

Njarðvíkingar höfnuðu í fjórða sæti deildarinnar, en þeir voru nokkuð góðir eftir áramót og Logi býst við Njarðvíkingum sterkum í úrslitakeppninni.

„Ég tel okkur hafa verið á góðum skriði eftir áramót, sérstaklega eftir að við fengum Stefan Bonneau. Víddin í leiknum okkar er meiri og ógnin frá honum er svakaleg þannig það opnast fyrir fleiri leikmenn. Því tel ég möguleika okkar mjög góða,“ segir Logi, en hvaða lið eru líklegust?

„KR-ingarnir hafa verið sterkastir og Tindastóll. Þetta hafa verið stöðugustu liðin í vetur. En svo eru lið eins og við, Stjarnan og Keflavík sem geta farið langt. Þegar litið er yfir allan hópinn eru það KR og Tindastóll sem mönnum finnst að ættu að fara alla leið.“

„Ég man ekki eftir svona jafnri deild. Þetta gerir boltann bara skemmtilegri, áhorfið verður meira og spennan í úrslitakeppninni verður svakaleg,“ segir Logi Gunnarsson.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×