Körfubolti

Sverrir Þór: Liðin sem ætla að vinna þurfa alltaf að fara í gegnum KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur. Vísir/Ernir
Sverrir Þór Sverrisson og lærisveinar hans í Grindavík fá verðugt verkefni í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta en fyrsti leikur liðsins á móti Íslands- og deildarmeisturum KR fer fram í DHL-höllinni í kvöld og verður einnig sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld.

„KR er besta liðið í vetur og við fáum þá bara strax í fyrstu umferð," sagði Sverrir Þór í viðtali við Arnar Björnsson á kynningarfundi fyrir úrslitakeppnina.

„Við ætlum okkur stóra hluti eins og á hverju ári í Grindavík þrátt fyrir skrítinn vetur. Við erum búnir að vera miklu sterkari eftir áramót. Við erum alveg klárir á því að ef við spilum góðan leik og það smellur allt hjá okkur þá getum við tekið KR-inga," sagði Sverrir Þór.

„Líkurnar hljóta að vera KR-megin ef einhver er að veðja á þetta fyrirfram. Við höfum fulla trú á þessu og þótt að margir hugsi að það sé hrikalega að fá KR strax í fyrstu umferð þá er það bara þannig að liðin sem ætla sér að vinna þetta þurfa alltaf að fara í gegnum KR. Það reynir bara á okkur í fyrstu umferð . Við fáum okkar tækifæri núna og það er bara okkar að nýta það," sagði Sverrir Þór.

„Það þurfa fullt að hlutum að smella hjá okkur ef við ætlum að slá út KR," sagði Sverrir Þór en það má sjá allt viðtal Arnars Björnssonar við hann hér fyrir neðan.



Leikur KR og Grindavíkur hefst klukkan 19.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×