Körfubolti

Brynjar: Ég er spenntur og smá stressaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. Vísir/Stefán
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði deildarmeistara KR, segir sitt lið tilbúið í úrslitakeppnina sem hefst með leik á móti Grindavík í DHL-höllinni í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Þetta er nýtt mót og í raun ákveðið hraðmót. Ég held að við séum vel tilbúnir í það mót og ætlum að gera allt til þess að ná í þennan stóra," sagði Brynjar í viðtali við Arnar Björnsson á kynningarfundi fyrir úrslitakeppnina.

KR-liðið hefur væntanlega úrslitakeppnina án aðalleikstjórnanda síns Pavels Ermolinskij.

„Við þurfum bara að fylla skarðið hans Pavel, fá stigin, fráköstin og stoðsendingarnar og allt sem hann gerir. Þetta er ekki lítið skarð sem þarf að fylla en ég held  að við allir hinir leikmennirnir séum tilbúnir í þetta verkefni," sagði Brynjar.

„Það virkilega spennandi fyrir okkur hina að fá tækifæri til að stíga upp og sýna hvað í okkur býr," sagði Brynjar en hvað með mótherjana úr Grindavík.

„Þeir eru með reynslubolta í öllum stöðum og þarna eru Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára að mætast. Það eru leikmenn hjá Grindavík sem kunna þetta allt saman og kaninn þeirra er alltaf að komast í betra og betra form. Þetta verður ofboðslega erfið sería," sagði Brynjar en er hann hræddur við Grindavíkurliðið?

„Ég er spenntur og smá stressaður," sagði Brynjar en það má sjá allt viðtal Arnars Björnssonar við fyrirliði KR-liðsins hér fyrir neðan.

Leikur KR og Grindavíkur hefst klukkan 19.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×