Handbolti

Handboltamarkvörður spilar á ný en núna með gangráð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Omeyer og aðrir handboltamarkverðir hafa það markmið að fá skot í sig.
Thierry Omeyer og aðrir handboltamarkverðir hafa það markmið að fá skot í sig. Vísir/Getty
Hinn 22 ára gamli Fredrik Bergqvist er kominn aftur í markið hjá sænska handboltaliðinu Borlänge og það væri svo sem engar stórfréttir nema vegna þess sem hann gekk í gegnum fyrir fjórum mánuðum.

Bergqvist hné niður heima hjá sér síðasta haust þegar hann fékk fyrir hjartað en hann er nú kominn með gangráð og er klár í slaginn á ný. Sænska ríkissjónvarpið segir frá þessu á vef sínum.

„Jú það er nú frekar heimskulegt að standa í marki í handbolta og hvað þá núna. Ég vildi bara hjálpa Borlänge og þetta var aldrei spurning í mínum huga," sagði Fredrik Bergqvist við svt.se.

Hann þarf að spila með sérstaka vörn yfir gangráðinn og mun nota til þess einfalda útgáfu af markmannsbúningi í íshokkí.

Bergqvist var aðalmarkvörður Borlänge þegar veikindin komu upp og flestir héldu að ferillinn væri á enda. Hann var þó ekki tilbúinn að setja skóna upp á hillu.

„Mér var ráðlagt að fara ekki í íþróttir sem innihalda líkamleg átök og ég verð að vera með gangráð. Ég hitti síðan lækni sem var á því að ég gæti spilað áfram," sagði Bergqvist en lykilatriði var að hann gæti spilað með nógu góða hlíf.

„Mér finnst ég öruggur með þessa varnarhlíf. Ég verð örugglega aumur ef ég fæ skot í hana en án varnarinnar væri ég örugglega smeykur," sagði Bergqvist en það er hægt að sjá umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins um hann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×