Erlent

ISIS samþykkir bandalag við Boko Haram

Samúel Karl Ólason skrifar
Abubakar Shekau og Abu Bakr al-Baghdadi.
Abubakar Shekau og Abu Bakr al-Baghdadi.
Talsmaður Íslamska ríkisins segir að samtökin hafi samþykkt bandalag við afrísku hryðjuverkasamtökin Boko Haram. Aðferðir beggja samtakanna þykja grimmileg og miskunnarlaus, en bæði samtökin eiga einnig undir högg að sækja á sínum heimaslóðum.

ISIS berst nú á mörgum víglínum í Írak og Sýrlandi, við íraska herinn og aðra aðila eins og Peshmerga sveitir Kúrda. Þar að auki gera Bandaríkin og bandamenn þeirra loftárásir gegn samtökunum.

Vígamenn Boko Haram hafa verið hraktir úr fjölda bæja í Norður-Nígeríu af sameinuðu herjum nokkurra Afríkuríkja.

AP fréttaveitan segir að áróðursmyndböndum Boko Haram hafi fjölgað síðustu misseri og gæði þeirra aukist. Það er sagt sýna fram á að þeir njóti aðstoðar fjölmiðladeildar ISIS. Á laugardaginn birtist á netinu hljóðupptaka af Abubakar Shekau, leiðtoga Boko Haram, þar sem hann lofaði ISIS hollustu samtakanna.

Fjölmiðladeild ISIS Al-Furqan, birti í gær hljóðupptöku af Abu Mohammed al-Adnani, talsmanni ISIS, þar sem hann sagði þá taka tilboði Boko Haram og hvatti hann fólk til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin.

Sérfræðingur sem AP ræddi við sagði að þar sem sífellt erfiðara verður fyrir erlenda vígamenn að ganga til liðs við ISIS í Sýrlandi, gætu þeir þess í stað haldið til Afríku og haft samband við Boko Haram.

Talið er að vígamenn Boko Haram hafi myrt um tíu þúsund manns í fyrra, en samtökin hafa í sex ár reynt að stofna sjálfstætt ríki í Norðaustur-Nígeríu, sem byggir á sjaríalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×