Körfubolti

Snæfellingar kvöddu Pálma með sigri á Grindavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Freyr Sigurgeirsson,
Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Vísir/Stefán
Snæfell vann tveggja stiga sigur á Grindavík í lokaumferð Dominos-deildar karla í körfubolta í Stykkishólmi í kvöld, 91-89, en þetta var síðasti leikur Pálma Freys Sigurgeirssonar eftir 19 ára feril.

Pálmi Freyr átti heldur betur þátt í sigrinum því auk þess að skora 16 stig í leiknum þá átti hann líka stoðsendinguna á Christopher Woods þegar hann skoraði sigurkörfuna í leiknum.

Tapið kemur sér afar illa fyrir Grindavíkurliðið sem var í harðri baráttu um að sleppa við að mæta deildarmeisturum KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Christopher Woods skoraði 27 stig fyrir Snæfell og Sigurður Þorvaldsson var með 17 stig. Rodney Alexander skoraði 33 stig og tók 19 fráköst fyrir Grindavíkurliðið en það dugaði ekki.

Jón Axel Guðmundsson skoraði 11 af 25 stigum sínum í endurkomu Grindavíkurliðsins í fjórða leikhlutanum en Snæfell náði að hanga á sigrinum.  

Grindavík var einu stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann, 19-18, en frábær annar leikhluti skilaði Snæfellsliðinu ellefu stiga forskoti í hálfleik, 51-40. Snæfellsliðið vann leikhlutann 33-21 þar sem Sigurður Þorvaldsson skoraði tólf stig.

Snæfellsliðið skoraði sex af sjö fyrstu stigum seinni hálfleiksins og komst í 57-41. Pálmi Freyr skoraði alls sex stig á fyrstu fjórum mínútum þriðja leikhlutans sem skilaði Snæfellsliðinu sextán stiga forystu, 61-45. Grindavík minnkaði muninn en Snæfell var ellefu stigum yfir, 74-63, fyrir lokaleikhlutann.

Grindvíkingum tókst að vinna upp forskotið og jafna metin í 89-89 með tveimur þriggja stiga körfum í röð en Hólmara höfðu tíma til að skora sigurkörfuna og tókst að tryggja sér sigur í síðasta leik liðsins á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×