Guðmundur Benediktsson, knattspyrnulýsandi Stöðvar 2, hefur ætíð verið þekktur fyrir skemmtilegar lýsingar. Guðmundur lýsti 3-0 sigri Íslands á Kazakstan í gær og fór á kostum, eins og honum einum er lagið.
Heimamenn fengu heldur betur færi undir lokin til þess að minnka muninn, en í þrígang í sömu sókninni fengu þeir kjörið tækifæri til að koma boltanum yfir línuna. Allt kom fyrir ekki og náðu strákarnir okkar að halda hreinu í fjórða leiknum af fimm í þessari undankeppni.
Frábæra lýsingu Gumma má sjá í sjónvarpsglugganum hér ofar í fréttinni, en veislan hefst þegar um 00:25 eru búnar af myndbandinu.
Ísland vann leikinn 3-0 eins og áður segir. Eiður Smári Guðjohnsen kom Ísland á bragðið og Birkir Bjarnason kláraði svo leikinn með tveimur mörkum í sitthvorum hálfleiknum.
Ísland er eftir leikinn í öðru sæti riðilsins með tólf stig, stigi á eftir Tékklandi. Hollendingar eru í þriðja sætinu með sjö stig.
Gummi Ben fer á kostum: "Ekki láta þá skora.. nei, nei, nei!"
Anton Ingi Leifsson skrifar