Sport

Beið á meðan aðalkeppinauturinn stóð aftur upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sævar Birgisson.
Sævar Birgisson. Vísir/Ernir
Sævar Birgisson varð í gær Íslandsmeistari í sprettgöngu á Skíðamóti Íslands eins og Elsa Guðrún Jónsdóttir en hann mætti líka fá aukaverðlaun fyrir drengskap.

Skíðamót Íslands fer fram þessa dagana á Dalvík og Ólafsfirði. Sprettgangan fór fram á Ólafsfirði, en brautin var hringinn í kringum tjörnina í miðbæ Ólafsfjarðar. Hringurinn var um 500 metra langur og gengu konurnar tvo hringa og karlarnir gengu þrjá hringi. Aðstæður voru nokkuð erfiðar en brautin var blaut og þung.

Landsliðsmennirnir Sævar Birgisson og Brynjar Leó Kristinsson börðust um gullið í sprettgöngunni og Morgunblaðið segir frá drengilegri framgöngu Sævars í dag.

Brynjar Leó var fremstur þegar kom að síðasta hring en datt í síðustu brekkunni sem gaf Sævari tækifærið á að vinna örugglega.

„Ég stoppaði og beið eftir honum og svo tókum við endasprett. Ég hafði það ekki í mér að fara bara fram úr honum og í mark. Það er ekkert gaman að vinna þannig," sagði Sævar við Morgunblaðið.

Í kvennaflokki sigraði Elsa Guðrún nokkuð sannfærandi, en Jónína Kristjánsdóttir endaði í öðru sætinu. Í þriðja sæti varð Svava Jónsdóttir, en hún er einmitt systir Elsu Guðrúnar. Allar koma þær frá Ólafsfirði.

Úrslit í sprettgöngu kvenna:

1. Elsa Guðrún Jónsdóttir - Skíðafélag Ólafsfjarðar - 04:01

2. Jónína Kristjánsdóttir - Skíðafélag Ólafsfjarðar - 04:12

3. Svava Jónsdóttir - Skíðafélag Ólafsfjarðar - 04:31

Úrslit í sprettgöngu karla:

1. Sævar Birgisson - Skíðafélag Ólafsfjarðar - 04:35

2. Brynjar Leó Kristinsson - Skíðafélag Akureyrar - 04:39

3. Dagur Benediktsson - Skíðafélag Ísafjarðar - 04:58




Fleiri fréttir

Sjá meira


×