Handbolti

Annar sigur Berlínarrefanna í röð | Oddur markahæstur hjá Emsdetten

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur og félagar hafa verið á ágætis skriði að undanförnu.
Dagur og félagar hafa verið á ágætis skriði að undanförnu. vísir/getty
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Füchse Berlin unnu fimm marka sigur, 26-31, á Friesenheim á útivelli í þýsku Bundesligunni í handbolta í dag.

Leikurinn var jafn framan af en Berlínarrefirnir tóku völdin snemma í seinni hálfleik. Þeir breyttu stöðunni úr 21-22 í 23-28 á 11 mínútna kafla og þá var björninn unninn.

Konstantin Igropulo var markahæstur í liði Füchse með níu mörk en Tékkinn Petar Nenadic kom næstur með sjö.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer sem tapaði með átta marka mun fyrir Lemgo á útivelli, 34-26. Björgvin Páll Gústavsson stóð lengst af í marki Bergischer og varði átta skot.

Wetzlar lagði Erlangen að velli, 28-26, á heimavelli. Sigurbergur Sveinsson komst ekki á blað hjá Erlangen.

Þá vann Lübbecke öruggan sigur á Bietigheim, 32-24.

Oddur var markahæstur í liði Emsdetten með 10 mörk.vísir/vilhelm
Fimm Íslendingalið voru í eldlínunni í B-deildinni.

Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Emsdetten sem vann þriggja marka sigur á HG Saarlouis á útivelli, 28-31.

Oddur skoraði 10 mörk úr aðeins 11 skotum. Anton Rúnarsson kom næstur með sex mörk, þar af þrjú úr vítum. Ernir Hrafn Arnarson skoraði tvö mörk en Ólafur Bjarki Ragnarsson lék ekki með Emsdetten í kvöld vegna meiðsla.

Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk fyrir Eisenach sem vann fjögurra marka sigur, 27-23, á Leipzig í toppslag. Með sigrinum komst Eisenach upp í 2. sæti deildarinnar en þrjú efstu liðin fara upp í Bundesliguna.

Grosswallstadt vann 30-26 sigur á Hüttenberg í Íslendingaslag.

Fannar Friðgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Grosswallstadt en Ragnar Jóhannsson fjögur fyrir Hüttenberg sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar.

Þá beið Aue afhroð gegn Nordhorn-Lingen á útivelli, 27-17. Sigtryggur Rúnarsson skoraði tvö mörk fyrir Aue og þeir Hörður Sigþórsson og Árni Sigtryggsson eitt hvor. Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað. Sveinbjörn Pétursson varði fjögur skot í marki Aue en þjálfari liðsins er Rúnar Sigtryggsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×