Innlent

Rjómablíða norðanlands og má búast við svipuðu veðri á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. Vísir/Pjetur
Íbúar á norður- og norðausturlandi fengu sýnishorn af sumarveðri á þessum fallega apríldegi. Á Akureyri var heiðskírt fram eftir degi og fór hiti tæplega í þrettán gráður um þrjú leytið í dag. Á fimmta tímanum kólnaði  heldur og var hiti kominn í rúmar átta gráður og farið að blása úr norðri.

Frá Egilsstöðum er svipaða sögu að segja en þar var heiðskírt fram eftir degi og og fór hitinn tæpar þrettán gráður og hélst þannig fram á fimmta tímann í dag.

Veðrið lék ekki jafnvel við Reykvíkinga sem þurftu að sætta sig við sjö gráðu hita þegar mest var um þrjú leytið í dag og var skýjahula yfir borginni.

Á morgun má búast við svipuðu veðri á landinu og var í dag. Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir vestlægri átt upp úr hádegi á morgun og skúrum en fer að létta til norðan- og austanlands. Heldur hægari vindur og úrkomulítið annað kvöld. Hiti 5 -10 stig að deginum en 8 -13 stig norðan- og austanlands.

Á laugardag og sunnudag:

Suðlæg átt, 8-13 m/s og súld með köflum, en þurrt og bjart norðan- og austanlands. Hiti 5 til 14 stig að deginum, hlýjast fyrir norðan.

Á mánudag:

Suðlæg átt 8-13 m/s og rigning sunna- og vestanlands, en þurrt að kalla norðaustan til. Lítið eitt svalara.

Á þriðjudag:

Suðvestan átt og skúrir, en slydduél norðvestan til. Yfirleitt þurrt austan til á landinu. Hiti 2 til 9 stig.

Á miðvikudag:

Líkur á að snúist í norðanátt með éljum fyrir norðan, en vestlægari og vætusamt syðra. Kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×