NPA-samningur er þegar fatlaður einstaklingur semur við sveitarfélag sitt um aðstoð í daglegu lífi. Samningarnir geta verið afar dýrir þar sem margir með samningana þurfa aðstoð allan sólarhringinn. Eftir að sveitarfélögin skrifa undir samningana við einstaklingana geta liðið mörg ár þar til þeir taka gildi, þar sem erfitt er að fjármagna þá.
Í núverandi fyrirkomulagi er ríkinu skylt að fjármagna 25 prósent í hverjum samningi og sveitarfélögunum 75 prósent. Í fréttum Stöðvar 2 síðustu daga hefur verið rætt við einstaklinga sem bíða nú eftir fjármögnun sinna samninga.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra segir ríkið hafa fjármagnað sinn hluta af öllum þeim samningum sem komið hafa á borð ráðuneytisins.
„Ég er alveg sammála því að þetta er ekki ásættanlegt að fólk þurfi að bíða svona lengi eftir þjónustu sem búið er að samþykkja. Ég vonast bara til þess að það leysist úr þessu, meðal annars með því að ríkið er búið að samþykkja sinn hluta fjármögnunarinnar. En ég heyri frá sveitarfélögunum að þetta er erfitt í sumum tilfellum að klára fjármögnunina. En vonandi leysist úr því hjá þeim,“ segir Guðmundur Ingi.
Það hefur ekki borist til tals að auka framlag ríkisins. Ráðuneytið sé þó í stöðugu samtali við sveitarfélögin um málið. Hann kallar eftir því NPA-biðlistarnir verði gerðir opnir þeim sem eru á þeim.
„Ef eitthvað breytist á þeim biðlista, þá vitir þú að breytingin er að eiga sér stað og hvers vegna hún á sér stað. Ég held að það væri heppilegra fyrirkomulag,“ segir Guðmundur Ingi.