Handbolti

Veiktist alvarlega er hann borðaði geitaost í Katar

Johan Sjöstrand.
Johan Sjöstrand. vísir/getty
Sænski handboltamarkvörðurinn Johan Sjöstrand spilar ekki meira á tímabilinu vegna veikinda.

Fyrir fjórum vikum síðan lagðist hinn sænski markvörður Kiel, Johan Sjöstrand, í rúmið með háan hita. Hitinn fór ekkert niður og læknar skildu hvorki upp né niður í því.

Nú hafa þeir komist að hinu sanna. Sjöstrand er með svokallaða öldusótt en það er smitandi bakteríusýking. Hann berst á milli dýra en getur einnig borist frá dýri til manna og er helsta smitleiðin ógerilsneyddar mjólkurvörur og kjöt. Þetta er tilkynningaskyldur smitsjúkdómur.

„Mér þykir líklegt að ég hafi borðið geitaost í Katar," sagði Sjöstrand en hann þarf nú að fara á sex vikna lyfjakúr vegna veikindanna og spilar því ekki meira með Kiel í vetur.

Þetta er mikið áfall fyrir Kiel enda er Sjöstrand aðalmarkvörður liðsins. Hann mun ekki spila aftur fyrir félagið þar sem hann gengur í raðir Melsungen í sumar. Kiel fær þá Niklas Landin í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×