Körfubolti

Sjöundi leikur Ívars á aðeins níu dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. Vísir/Ernir
Það hefur verið nóg að gera hjá Ívari Ásgrímssyni, þjálfara Haukaliðanna, síðustu daga en bæði liðin eru í undanúrslitum Dominos-deildanna.

Karlalið Hauka mætir Tindastól í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld og verður að vinna til að fá oddaleik á Króknum á föstudaginn.

Kvennalið Hauka tapaði á móti Keflavík í TM höllinni í Keflavík í gær og þar með undanúrslitaeinvíginu 3-0. Haukakonur eru því komnar í sumarfrí og Ívar tilkynnti eftir leikinn að hann væri hættur með liðið.

Ívar talaði um mikið álag sem fylgir því að þjálfa tvo meistaraflokka í fremstu röð og þessi reynslumikli þjálfari hefur heldur betur fengið að kynnast því undanfarna daga.

Leikurinn í kvöld verður sjöundi leikur liða Ívars á aðeins níu dögum eða frá því að karlaliðið spilaði fyrsta leikinn í undanúrslitaeinvíginu við Tindastól 7. apríl síðastliðinn.

Á síðustu níu dögum hefur Ívar aðeins fengið frí fimmtudaginn 9. apríl og sunnudaginn 12. apríl og fjórir af þessum leikjum hafa verið á útivelli með tilheyrandi ferðlögum (tvisvar á Krókinn og tvisvar til Keflavíkur).

Ekki hefur það auðveldað þessa törn fyrir Ívar að Haukaliðin hafa tapað fimm af þessum sex leikjum en Haukastrákarnir geta glatt hann með sigri í kvöld. Takist það bíður liðsins oddaleikur í Síkinu á Króknum á föstudaginn.

Leikir liða Ívars Ásgrímssonar á síðustu dögum:

7. apríl - Karlaliðið tapaði 64-94 fyrir Tindastól á Sauðárkróki

8. apríl - Kvennaliðið tapaði 51-82 fyrir Keflavík í Keflavík

9. apríl - enginn leikur

10.apríl - Karlaliðið tapaði 74-86 fyrir Tindastól á Ásvöllum

11. apríl - Kvennaliðið tapaði 67-74 fyrir Keflavík á Ásvöllum

12. apríl - enginn leikur

13. apríl - Karlaliðið vann 93-79 sigur á Tindastól á Sauðárkróki

14. apríl - Kvennaliðið tapaði 66-75 fyrir Keflavík í Keflavík

15. apríl - Karlaliðið mætir Tindastól á Ásvöllum í kvöld




Fleiri fréttir

Sjá meira


×