Körfubolti

Bonneau er sannarlega á heimavelli í Ljónagryfjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau.
Stefan Bonneau. Vísir/Valli
Stefan Bonneau, bandaríski leikstjórnandi Njarðvíkinga, verður í sviðsljósinu með félögum sínum í kvöld þegar Njarðvík tekur á móti KR í fjórða leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Dominos-deildar karla.

Njarðvíkingar hafa unnið fjóra fyrstu heimaleiki sína í úrslitakeppninni í ár og þar vegur þungt frábær frammistaða Stefan Bonneau.

Stefan Bonneau hefur skorað 36,3 stig, tekið 6,0 fráköst og gefið 6,3 stoðsendingar að meðaltali í heimaleikjum Njarðvíkurliðsins í úrslitakeppninni en hann hefur skorað 30 stig eða meira í öllum fjórum leikjunum.

Bonneau er "bara" með 23,0 stig og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í útileikjunum en Njarðvíkurliðið hefur tapað þeim öllum, tveimur á móti Stjörnunni í átta liða úrslitunum og tveimur á móti KR í undanúrslitunum.

KR er 2-1 yfir í einvíginu eftir sigra í báðum leikjum liðanna í DHL-höllinni en Njarðvík vann heimaleikinn sinn á eftirminnilegri þriggja stiga körfu Stefan Bonneau, sekúndu fyrir leikslok.

Stefan Bonneau hefur verið sérstaklega duglegur að koma sér á vítalínuna og nýta vítin sín í heimaleikjunum. Hann er með 93 prósent vítanýtingu í Ljónagryfjunni í úrslitakeppninni og hann er að fá tvöfalt fleiri víti í heimaleikjunum en í útileikjunum.

Fjórði leikur Njarðvíkur og KR hefst klukkan 19.15 í Ljónagryfjunni í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.



Heimaleikir Stefan Bonneau í úrslitakeppninni 2015:

19. mars á móti Stjörnunni - 88-82 sigur

30 stig, 7 stoðsendingar, 1 þristur, hitti úr 13 af 13 vítum

26. mars á móti Stjörnunni - 92-86 sigur

45 stig, 10 stoðsendingar, 5 þristar, hitti úr 14 af 14 vítum

2. apríl á móti Stjörnunni - 92-73 sigur

36 stig, 3 stoðsendingar, 4 þristar, hitti úr 10 af 11 vítum

9. apríl á móti Stjörnunni - 85-84 sigur

34 stig, 5 stoðsendingar, 6 þristar, hitti úr 4 af 6 vítum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×