Körfubolti

Stólarnir náðu ekki meti Snæfells og KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrell Flake og félagar voru búnir að vinna fimm fyrstu leikina.
Darrell Flake og félagar voru búnir að vinna fimm fyrstu leikina. Vísir/Andri Marinó
Tindastóll tapaði í gær sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni í ár þegar liðið lá með fjórtán stigum á heimavelli á móti Haukum en fyrir leikinn var liðið eina ósigraða liðið í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfubolta.

Stólarnir fá tvö tækifæri til viðbótar til að komast í lokaúrslitin en þeir misstu hinsvegar af meti með því að tapa leiknum í gær.

Snæfellsliðið frá 2004 og KR-liðið frá 2009 eru einu liðin sem hafa unnið fyrstu sex leiki sína í úrslitakeppni en með sigri í gær hefði Tindastólsliðið jafnað metið þeirra.

Tindastólsliðið hefði jafnframt orðið fyrsta liðið til að komast taplaust í lokaúrslitin síðan að það þurfti að vinna þrjá leiki í átta liða úrslitunum.

Þetta er annað árið í röð sem liði mistekst að vinna sjötta leikinn í röð eftir að hafa unnið fimm fyrstu leiki sína í úrslitakeppni. KR-ingar kynntust því einnig í fyrra en þeir töpuðu þá á heimavelli í sjötta leik alveg eins og Stólarnir í ár.

Stjarnan vann þá þriðja leikinn í Vesturbænum og minnkaði muninn í 2-1 í undanúrslitaeinvígi liðanna. KR-ingar unnu hinsvegar næsta leik og fóru í lokaúrslitin þar sem þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.

Nú er að sjá hvort Tindastóll hefur sama háttinn á þegar þeir mæta Haukum á Ásvöllum annað kvöld. Sigur þýðir sæti í lokaúrslitunum á móti annaðhvort KR eða Njarðvík en tap þýðir að liðin mætast í oddaleik á Króknum á föstudagskvöldið.

Besta byrjun í einni úrslitakeppni 1984-2015:

6-0

Snæfell, 2004

KR, 2009  - Íslandsmeistari

5-0

KR, 1990  - Íslandsmeistari

Grindavík, 1997 - 2. sæti

KR, 2014  - Íslandsmeistari

Tindastóll, 2015

4-0

Njarðvík, 1984  - Íslandsmeistari

Njarðvík, 1986  - Íslandsmeistari

Njarðvík, 1987  - Íslandsmeistari

Snæfell, 2008 - 2. sæti

Grindavík, 2009 - 2. sæti

KR, 2011  - Íslandsmeistari

Grindavík, 2012  - Íslandsmeistari

KR, 2015




Fleiri fréttir

Sjá meira


×