Handbolti

Dagur: Engin pressa á mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson getur kvatt Refina með Evróputitli.
Dagur Sigurðsson getur kvatt Refina með Evróputitli. vísir/getty
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Füchse Berlín standa í ströngu þessa dagana, en þeir spiluðu um síðustu helgi til undanúrslita í þýska bikarnum.

Berlínarrefirnir eiga fyrir höndum aðra úrslitahelgina í röð, núna í EHF-bikarnum, en hún fer fram á heimavelli þeirra í Max Schmeling-höllinni í Berlín.

Füchse mætir slóvenska liðinu RK Velenje í undanúrslitum á laugardaginn, en í hinum undanúrslitaleiknum mætast danska liðið Skjern og þýska liðið Hamburg.

„Ef ég á að vera heiðarlegur var mér alveg sama hverjum við myndum mæta þegar dregið var. Þetta eru fjögur jöfn lið sem eiga öll skilið að vera komin svona langt. Við erum búnir að mæta Hamburg tvisvar í deildinni og Skjern tvisvar í EHF-bikarnum þannig að mæta Velenje er kannski einhver fyrirboði,“ segir Dagur í viðtali á vef evrópska handknattleikssambandsins.

Úrslitahelgin fór einnig fram í Berlín í fyrra en þá misstu refirnir af tækifærinu að spila fyrir framan sitt fólk þar sem þeir komust ekki í undanúrslit.

„Við erum í annarri stöðu í ár. Við erum reyndari eftir að spila í þessari keppni í fyrsta skipti í fyrra. Nú höfum við vonandi lært okkar lexíu. Öll fjögur liðin sem taka þátt um helgina gætu verið að spila í Meistaradeildinni þannig hlutirnir verða ekki auðveldir fyrir okkur,“ segir Dagur.

Úrslitahelgi EHF-bikarsins er síðasti möguleiki Dags á stórum titli með Füchse Berlín þar sem hann lætur af störfum hjá liðinu í sumar og einbeitir sér að þýska landsliðinu.

Þrátt fyrir það finnur hann ekki til meiri pressu að skila titli í hús, en þetta verður einnig í síðasta skiptið sem tveir af bestu leikmönnum liðsins reyna að vinna bikar fyrir Refina.

„Það er engin pressa á mér. Það eru líka fleiri að kveðja eins og Iker Romero og Konstantin Igroupoulo. Við róum allir í sömu átt og viljum ná takmarki okkar saman. Allir - ekki bara þeir sem eru að fara - eru ólmir í að vinna þennan titil,“ segir Dagur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×