Tekjur ríkissjóðs af skatti sem ríkisstjórnin hyggst leggja á slitabú föllnu bankanna gæti mest numið 850 milljörðum króna samkvæmt því sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á fundi um afnám fjármagnshafta í hádeginu.
Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar sem slitabúin geti nýtt sér uppfylli þau ákveðin skilyrði.
Slitabúin hafa til áramóta til að ljúka nauðasamningum sem uppfylla stöðugleikaskilyrði. Stöðugleikaskilyrðin hafa verið samþykkt af ráðherranefnd um efnahagsmál og stýrinefnd um losun fjármagnshafta, en þeim er ætlað að koma í veg fyrir óæskileg áhrif vegna útgreiðslu fjármuna.
Stöðugleikaskatturinn verður lagður á í apríl árið 2016 og skal vera greiddur að fullu fyrir mitt ár 2016. Skatturinn verður lagður á miðað við eignir slitabúanna um næstu áramót.
Samkvæmt kynningu á afnámi fjármagnshafta munu tekjur ríkissjóðs af skattinum helst vera nýttar til að greiða niður skuldir. Þar verði sett í forgang að greiða niður skuldir ríkisins við Seðlabanka Íslands. Eftirstöðvar skuldabréfs ríkisins við Seðlabankann stóð í 145 milljörðum króna um síðustu áramót.

