Sport

Skrópaði Farrah í lyfjaprófum fyrir síðustu Ólympíuleika?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Farrah fékk heiðursorðu árið 2013.
Farrah fékk heiðursorðu árið 2013. Vísir/Getty
Enska blaðið Daily Mail fullyrðir í dag að breska frjálsíþróttahetjan Mo Farrah hafi misst af tveimur lyfjaprófum í aðdraganda Ólympíuleikanna í Lundúnum árið 2012.

Farrah, sem vann gull í bæði 5000 og 10000 m hlaupum á leikunum, er sagður hafa misst af sínu fyrsta prófi árið 2010 og svo aftur ári síðar. Þá var hann byrjaður að æfa undir handleiðslu þjálfarans Alberto Salazar.

Salazar var nýverið tekinn fyrir í heimildamynd og sagður hafa notað ólögleg lyf til að auka árangur skjólstæðinga sinna. Þeirra á meðal er bandaríski hlauparinn Galen Rupp sem varð í öðru sæti á eftir Farrah í 10000 m hlaupinu í Lundúnum.

Farrah sagðist á dögunum þrátt fyrir allt ætla að halda tryggð við Salazar enda ekkert enn komið fram um að Farrah hafi nokkru sinni tekið inn ólögleg lyf.

Íþróttamenn mega eiga von á því að verða teknir í lyfjapróf hvar og hvenær sem er og þurfa því að láta vita af ferðum sínum fyrirfram. Ef íþróttamenn í Bretlandi missa af þremur lyfjaprófum yfir eins árs tímabil geta þeir átt von á því að verða dæmdir í eins árs keppnisbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×