Arda Turan, fyrirliði tyrkneska landsliðsins og leikmaður Atlético Madrid, var hetja síns liðs í kvöld þegar Tyrkir sóttu þrjú stig til Kasakstan í riðli Íslands í undankeppni EM 2016.
Tyrkir þurftu að bíða þar til á 83. mínútu eftir eina marki leiksins en það skoraði Arda Turan með flottu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá hægri.
Tyrkir höfðu verið í stórsókn nær allan leikinn en virtist vera fyrirmunað að koma boltanum í markið þar til að fyrirliðinn tók til sinna ráða á lokamínútum leiksins.
Tyrkir áttu vissulega skilið að fá markið enda áttu þeir að fá augljósa vítaspyrnu í fyrri hálfleik auk þess að skjóta í stöng í þeim seinni í báðum tilfellum var Burak Yılmaz á ferðinni upp við mark Kasaka.
Jafnteflið hefðu verið fín úrslit fyrir íslenska landsliðið en eftir þennan sigur eru Tyrkir fjórum stigum á eftir íslenska landsliðinu sem mætir Tékkum á eftir á Laugardalsvellinum. Stigin þrjú komu liðinu upp fyrir Holland en Hollendingar mæta Lettum á útivelli seinna í kvöld.
Tyrkir töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppninni en hafa síðan náð stigum í fjórum leikjum í röð. Tyrkir eiga þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum á heimavelli þar á meðal lokaleik sinn á móti Íslandi.
Arda Turan hetja Tyrkja í Kasakstan í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
