Upplýsingafundir með afmörkuðum hópi kröfuhafa höfðu þó staðið á þessum tíma í nokkra mánuði. Samkvæmt bréfum sem slitabú Glitnis, LBI og Kaupþings sendu stjórnvöldum í byrjun vikunnar hófust þessir upplýsingafundir í desember á síðasta ári og í kjölfarið af þeim tilkynntu þeir stjórnvöldum um að þeir vildu semja.
Það var svo í síðari hluta marsmánaðar sem kröfuhafarnir, fulltrúar þeirra og slitastjórnir voru látnar undirrita sérstakar trúnaðaryfirlýsingar vegna umræddra funda og hafa þeir átt sér stað með reglulegu millibili síðan, samkvæmt upplýsingum á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Á fundum var stærstu kröfuhöfum gert ljóst hvað stjórnvöld hygðust gera í haftamálum. Á þessum fundum var þeim gert ljóst að valið stæði á milli þess að uppfylla ákveðin stöðugleikaskilyrði, sem meðal annars fela í sér umfangsmiklar greiðslur til ríkisins, eða að á þau myndi leggjast 39 prósent stöðugleikaskattur.