Íslenski boltinn

Tíu KA-menn töpuðu 2-1 í Grindavík og eru sex stigum frá Pepsi-deildarsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jósef Kristinn Jósefsson lagði upp mark fyrir Grindavík í kvöld.
Jósef Kristinn Jósefsson lagði upp mark fyrir Grindavík í kvöld. Vísir/Andri Marinó
Grindavík hoppaði upp fyrir bæði Akureyrarliðin og alla leið upp í fjórða sæti 1. deildar karla í fótbolta eftir 2-1 sigur á KA í Grindavík í lokaleik 11. umferðarinnar í kvöld.

Ásgeir Þór Ingólfsson skoraði fyrra mark Grindvíkinga fimmtán mínútum fyrir leikslok en Grindavíkurliðið var þá búið að vera manni fleiri í 36 mínútur. Óli Baldur Bjarnason skoraði annað markið í uppbótartíma áður en Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn rétt fyrir lokaflautið.

Tommy Nielsen og lærisveinar hans í Grindavík eru nú komnir með 20 stig og eru fjórum stigum á eftir Fjarðabyggð sem er í öðru sætinu.

KA-menn hafa aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum í 1. deildinni og eru nú sex stigum frá sæti í Pepsi-deildinni. Það var búist við miklu af liðinu í sumar en liðið hefur aðallega sýnt sitt rétt andlit í Borgunarbikarnum þar sem liðið er komið alla leið í undanúrslit.

KA-maðurinn Ívar Örn Árnason fékk réttilega rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingu á 39. mínútu leiksins en mark Ásgeirs Þórs Ingólfssonar kom þó ekki fyrr en á 75. mínútu leiksins.

Óli Baldur Bjarnason skoraði annað mark Grindvíkinga á annarri mínútu í uppbótartíma leiksins en Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði síðan muninn í 2-1 á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Það mark kom of seint og Grindvíkingar fögnuðu sigri.

Tveir síðustu sigrarnir hjá Grindavíkurliðinu í 1. deildinni hafa nefnilega verið á móti Akureyrarliðunum Þór og KA sem eru fyrir vikið dottin niður fyrir Grindvíkinga í stigatöflunni þegar mótið er hálfnað.

Upplýsingar um markaskorara í leiknum eru fengnar frá vefsíðunni fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×