Í málinu eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, einn stjórnenda bankans, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Saga Capital, ákærðir fyrir þátt sinn í lánveitingum Glitnis til hlutabréfakaupa í Glitni og FL Group. Mennirnir neita allir sök.

Forsaga málsins er sú að félagið Stím fékk tæplega 20 milljarða króna að láni frá Glitni til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group í nóvember árið 2007. Seljandi bréfanna var Glitnir en um var að ræða rúmlega 4 prósenta hlut í hvoru tilfelli. Veðin fyrir láni Stíms voru í hlutabréfunum í Glitni og FL Group.
Sjá einnig:Telja að vitni hafi samið við ákæruvaldið
Glitnir var sjálfur seljandi bréfanna sem Stím keypti og lögðu hluthafarnir einnig fram tæplega 5 milljarða króna eiginfjárframlag vegna kaupanna á bréfunum. Þremenningarnir eru ákærðir fyrir þátt sinn í þessum lánveitingum, en grunur leikur á um hafi verið að ræða tilraun til að halda verði á bréfum í Glitni hærri en eðlilegar forsendur voru fyrir.
Lárus og Jóhannes eru ákærðir fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína til lánveitinga og stefnt fjármunum bankans í verulega hættu. Þorvaldur er ákærður fyrir hlutdeild í brotinu.

Rannsókn málsins vakti mikla athygli en tvær umfangsmiklar lögregluaðgerðir vöktu sérstaka athygli. Um var að ræða húsleitir í nóvember 2010 og svo aftur ári síðar. Leitirnar tengdust auk Stím-málsins rannsókn sérstaks saksóknara í fleiri málum, þeirra á meðal Aurum-málinu. Var Lárus Welding meðal annars úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfar leitarinnar 2011.
Rannsókn sérstaks saksóknara lauk vorið 2013 og var ákært í málinu tæpu ári síðar eða í febrúar 2014. Athygli vakti að Jakob Valgeir Flosason, stjórnarformaður hjá STÍM, var ekki á meðal þriggja ákærðu.
Aðalmeðferð mun hefjast í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 16. nóvember en áætlað er að aðalmeðferðinni ljúki rúmri viku síðar eða 25. nóvember. Dómur í héraði ætti að liggja fyrir rétt fyrir jól.