Ljósmynd sem Daniel Etter tók af Laith vakti heimsathygli í síðasta mánuði en á henni mátti sjá grátandi Laith eftir hættumikla för á gúmmíbát yfir Miðjarðarhaf til Grikklands.
Á myndinni hélt Laith þétt um börn sín á grísku eynni Kos, en átta manns höfðu verið á gúmmíbátnum sem í raun var ætlaður þremur. „Engin ljósmynd hefur snert mig eins mikið og þessi,“ sagði Etter í samtali við Independent á sínum tíma, en myndin var birt í New York Times og var henni deilt í tugþúsundavís á samfélagsmiðlum.

Það tók fjölskylduna fjórar vikur að komast frá Kos til Þýskalands, þar á meðal í lokuðum vörubíl milli Aþenu og Berlínar. Á leiðinni gat fjölskyldan einungis farið úr bílnum á nóttunni til að anda að sér fersku lofti.
Fjölskyldan flúði frá heimili sínu í sýrlensku borginni Deir Ezzor þar sem átök hafa lengi geisað milli sýrlenska stjórnarhersins og uppreisnarmanna, en ISIS-liðar ráða nú yfir borginni. Fjölmörg ríki buðu fjölskyldunni að koma, en hún kaus að halda til Þýskalands.
„Angela Merkel er frábær. Hún er okkur sem móðir,“ segir Neda.
Dóttirin Nour segist enn fá martraðir um ferðina yfir Miðjarðarhaf. Bild segir frá því að þá sé hún vön að halda þétt um móður sína. „Við viljum aldrei framar halda aftur út á haf,“ segir Laith.