Innlent

Fyrirhugað að lengja fæðingarorlof vegna andvana fæðinga

Vaka Hafþórsdóttir skrifar
Í núgildandi lögum er fyrirkomulagið slíkt að móðir á rétt á þremur mánuðum af fæðingarorlofi, faðir þremur mánuðum en auk þess eiga þau saman þrjá mánuði sem þau geta skipt með sér.

Ef um andvana fæðingu er að ræða, eftir 22. vikna meðgöngu, eiga foreldrar sameiginlega rétt á fæðingarorlofi í þrjá mánuði.

Ef um fósturlát er að ræða, eftir 18. vikna meðgöngu, eiga foreldrar sameiginlega rétt á fæðingarorlofi í tvo mánuði, en ekkert fæðingarorlof er veitt fyrir fósturlát sem á sér stað fyrir 18. vikna meðgöngu.

Þær hugmyndir eru nú uppi að jafna stöðu þeirra sem upplifa andvana fæðingu við stöðu þeirra sem fæða lifandi barn, með þeim hætti að veita þeim fullt fæðingarorlof.

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar og flutningsmaður frumvarpsins, segir: „Þetta í rauninni fjallar um réttlæti, að fæði kona barn sem deyr á sama degi og það fæðist þá fær hún fullt fæðingarorlof, en móðir sem fæðir andvana barn fær ekki nema þrjá mánuði. Þetta er spurning um að leiðrétta þetta misræmi.“

Eftir stendur þó að konur sem missa fóstur eftir 18 vikur fá áfram aðeins tvo mánuði í orlof og þær sem missa fóstur fyrir þann tíma fá ekkert. Kristín Guðmundsdóttir missti tvíbura á nítjándu viku og segir hún tvo mánuði engann veginn nægan tíma til að jafna sig á áfallinu. Ennfremur gagnrýnir hún að ekki sé aukið á orlof þeirra sem missa fóstur fyrir 22. viku í frumvarpinu.


Tengdar fréttir

Segja ógerlegt að lifa á fæðingarorlofi

Tvær nýbakaðar mæður segja nær ógerlegt að lifa á tekjum frá fæðingarorlofssjóði og þarf önnur þeirra að búa í foreldrahúsum vegna tekjuskerðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×