Erlent

Tugir drukknuðu á flótta sínum í gær

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Baðstrandargestir á grísku eyjunni Lesbos fylgjast hér með komu sýrlensks flóttafólks á bátskrifli yfir hafið frá Tyrklandi.
Baðstrandargestir á grísku eyjunni Lesbos fylgjast hér með komu sýrlensks flóttafólks á bátskrifli yfir hafið frá Tyrklandi. vísir/EPA
Yfir þrjátíu manns fórust, þar á meðal að minnsta kosti eitt barn, þegar trébáti með um 130 flóttamenn hvolfdi við gríska eyjaklasann Farmakonisi í gærmorgun. Daily Mail hafði um kvöldmatarleytið í gær eftir grísku strandgæslunni að 34 lík hefðu fundist.

Gríska strandgæslan fékk tilkynningu um að þónokkur fjöldi væri í hættu á svæðinu og var í kjölfarið send björgunarþyrla á svæðið. Tuttugu og níu eru sagðir hafa náð að synda í land á Farmakonisi, en 68 var bjargað úr sjónum.

Þá streymdi fólk á bátum frá Tyrklandi til grísku eyjarinnar Lesbos. Þar segir fréttastofa AP að ljósmyndari frá Reuters hafi talið 10 báta á 90 mínútna tímabili í gærmorgun.

Tugir voru hætt komnir þegar stór gúmbátur með um 70 flóttamenn innanborðs gaf sig um hundrað metra frá stönd Lesbos. Þar er eyjaskeggjar sagðir hafa brugðist skarpt við og hjálpað fólki í land, en í hópnum var fjöldi barna.

Meirihluti flóttafólks sem kemur til Grikklands heldur för sinni áfram til annarra landa, flestir til Þýskalands. Evrópulönd hafa enn ekki náð saman um tillögur Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að löndin taki saman á flóttamannavandanum og deili álaginu af móttöku flóttafólksins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×