Handbolti

Aron fær nýjan þjálfara í Ungverjalandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ortega verður að finna sér nýja vinnu.
Ortega verður að finna sér nýja vinnu. Vísir/Getty
Aron Pálmarsson, leikmaður Veszprém og íslenska landsliðsins í handbolta, fékk í dag nýjan þjálfara hjá ungverska félaginu eftir að argentínski þjálfarinn Antonio Carlos Ortega var látinn taka poka sinn.

Ortega sem fékk Aron til liðs við Vezprém var að hefja sitt fjórða tímabil en fyrsta tímabil með Aron innanborðs. Hefur liðið unnið örugga sigra í fyrstu tveimur leikjunum í deildinni en náði aðeins jafntefli gegn Wisla Plock í fyrsta leik í Meistaradeildinni.

Þá tapaði liðið nokkuð óvænt í úrslitum gegn lærisveinum Erlings Richardssonar í Füsche Berlin í úrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða á dögunum.

Undir stjórn Ortega komst liðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en beið þar lægri hlut gegn spænska stórveldinu Barcelona.

Samkvæmt heimasíðu Vezprém mun Javier Sabaté taka tímabundið við stöðu þjálfara liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×