Markahæsti leikmaður enska landsliðsins, Wayne Rooney, verður að öllum líkindum ekki með sínum mönnum í síðustu tveimur leikjum þess í undankeppni EM 2016.
England er þegar búið að tryggja sér sæti á EM 2016 í Frakklandi en mætir Eistlandi á morgun og Litháen eftir helgi.
Enskir fjölmiðlar telja nánast öruggt að Rooney nái ekki leiknum á morgun vegna meiðsla og að hann ferðist ekki með liðinu til Litháen um helgina.
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari, mun vera að íhuga að láta Theo Walcott spila stöðu framherja í liðinu í fjarveru Rooney. Walcott átti frábæran leik í sókn Arsenal sem vann 3-0 sigur á Manchester United um síðustu helgi.
Rooney hefur misst af æfingum liðsins síðustu daga eftir að hann varð fyrir smávægilegum meiðslum í leiknum gegn Arsenal. Hann skoraði á dögunum sitt 50. landsliðsmark og varð um leið markahæsti leikmaður Englands frá upphafi.
Fyrir leikinn á morgun verður Rooney heiðraður af Sir Bobby Charlton, sem átti markametið á undan Rooney.
Rooney missir af landsleikjum Englands
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
