Rússneskir dómarar munu dæma leik Íslands og Lettlands á Laugardalsvellinum á laugardaginn en þetta er síðasti heimaleikur íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2016.
Aleksei Eskov er aðaldómari leiksins en alls munu samtals sex dómarar koma að því að dæma leikinn þar sem sprotadómarar eru einnig í dómarateyminu. KSÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni í dag.
Eskov. sem er 37 ára gamall, hefur verið alþjóðlegur dómari frá árinu 2011. Áður en hann fór í dómgæsluna þá var hann leikmaður og lék allan sinn feril í Rússlandi.
Aleksei Eskov hefur dæmt einn leik áður í riðli Íslands en hann var með flautuna í leik Tyrklands og Kasakstan sem fór fram í nóvember 2014. Tyrkland vann leikinn 3-1 en bæði liðin fengu víti í leiknum.
Eskov gaf fjögur gul spjöld í leiknum en ekkert rautt. Tyrkir fengu þrjú gul en Kasakar eitt. Kasakar minnkuðu muninn í 3-1 úr vítaspyrnu á 87. mínútu en fyrsta mark Tyrkja í leiknum kom einnig úr víti.
Aleksei Eskov hefur fengið þrjá leiki í Evrópudeildinni í vetur, tvo í undankeppninni og svo leik Marseille og Liberec í riðlakeppninni. Eskov hefur bara dæmt í forkeppni Meistaradeildarinnar en hefur enn ekki fengið leik í riðlakeppninni.
Rússneskur dómarasextett í Dalnum á laugardaginn
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
