Erlent

Assad: Aðgerðir vestrænna ríkja í Sýrlandi eru hryðjuverk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Assad Sýrlandsforseti nýtur stuðnings í Rússlandi.
Assad Sýrlandsforseti nýtur stuðnings í Rússlandi. Vísir/AFP
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti segir að loftárásir Rússa gegn hryðjuverkahópum í Sýrlandi verði að takast ella standi allt svæðið frammi fyrir eyðileggingu. Segir hann að aðgerðir vestrænna ríkja gegn ISIS geri ekkert nema auka óstöðugleikann á svæðinu og megi flokka sem hryðjuverk.

Biðlaði Sýrlandsforseti til þeirra ríkja sem stutt hafa uppreisnarhópa sem berjast gegn ríkisstjórn Sýrlands að hætta því. Það væri eina leiðin til þess að leysa vandann í Sýrlandi, ekki væri hægt að gera breytingar á stjórnskipulagi Sýrlands nema stöðugleiki væri fyrir hendi en Bandaríkjamenn og bandamenn hafa krafist þess að Assad víki frá völdum.

Assad var í viðtali við írönsku sjónvarpsstöðina Khabar og sagði hann aðgerðir vestrænna ríkja gegn ISIS kæmu því einu til leiðar að auka óstöðugleika í Sýrlandi og svæðinu í kring. Ef loftárásir Rússa myndu ekki skila árangri stæði allt svæðið frammi fyrir eyðileggingu.

„Í raun og veru eru vestrænu ríkin ábyrg fyrir því að ástandið í Sýrlandi er orðið svona slæmt. Þau hafa stutt hryðjuverkahópa og lagt umsátur um landið. Þau segjast vera að berjast gegn hryðjuverkum en þau fremja hryðjuverk með stefnu sinni í Sýrlandi.“

Rússar hófu í síðustu viku loftárásir á Sýrland en ekki sér fyrir endann á átökunum í Sýrlandi sem staðið hafa yfir í um fjögur ár. Milljónir Sýrlendinga hafa flúið land vegna átakanna.


Tengdar fréttir

Sprengjum varpað á óvini Assads forseta

Rússar halda áfram loftárásum sínum á uppreisnarmenn í Sýrlandi. Bandaríkin segja loftárásir Rússa vera olíu á eld átakanna. Rússar stefna ekki á landhernað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×