Fótbolti

Árni þakkaði föstudeginum fyrir fyrsta markið í Noregi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Árni Vilhjálmsson er kominn á blað.
Árni Vilhjálmsson er kominn á blað. vísir/lsk.no
Árni Vilhjálmsson, framherji Lilleström í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta, skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið þegar það lagði Haugasund að velli í 27. umferð deildarinnar í gær.

Árni, sem skoraði 19 mörk í 41 leik síðustu tvö tímabili sín í Pepsi-deildinni, hefur glímt við meiðsli á þessu tímabili og þurft að spila mikið á kantinum hjá Rúnari Kristinssyni.

Hann hefur aðeins byrjað fimm leiki fyrir Lilleström og komið inn á sex sinnum, en í gær tókst honum loksins að brjóta ísinn.

„Þetta var gaman. Það eru fjórir mánuðir síðan ég byrjaði síðast leik. Það var gaman að koma inn í liðið, vinna leikinn og skora. Þetta var góður leikur fyrir mig og liðið,“ segir Árni á sæmilegri norsku í viðtali við LSK TV.

Árni var vel staðsettur í teignum þegar Nígeríumaðurinn Freddy Friday skallaði boltann fyrir fætur Blikans sem þakkaði fyrir sig með að þruma honum í netið.

„Það eina sem ég þurfti að gera var að skalla boltann í netið eftir þessa frábæru sendingu frá Fred,“ segir Árni, en Friday er sjálfur búinn að skora átta mörk í 23 leikjum fyrir Lilleström og er lykilmaður liðsins.

Lilleström siglir lygnan sjó í norsku úrvalsdeildinni, en liðið er í áttunda sæti af 16 liðum þegar þrjár umferðir eru eftir á fyrstu leiktíð Rúnars Kristinssonar sem þjálfari þess.

Hér má sjá markið og viðtalið við Árna Vilhjálmsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×