„Ég held að ég hafi aldrei tapað fyrir Tyrkjum. Ég vona að það breytist ekki á morgun,“ sagði Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, við Vísi í gær og brosti út í annað.
Ísland mætir Tyrklandi í lokaleik sínum í undankeppni EM 2016 og þarf helst á sigri að halda til að vinna sinn riðil - eða treysta á að Tékkland vinni ekki Holland í kvöld.
Eins og sést hér neðst í fréttinni náði Lagerbäck ávallt góðum árangri gegn Tyrklandi sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar á sínum tíma. Hann hélt svo uppteknum hætti þegar Ísland vann 3-0 sigur á Tyrkjum í fyrsta leik núverandi undankeppni.
Sjá einnig: Erfiður útivöllur en strákarnir hafa gert þetta allt saman áður
Ísland er sem kunnugt er komið á sitt fyrsta stórmót og á Lagerbäck mikið að þakka fyrir þann árangur. Hann, ásamt Heimi Hallgrímssyni meðþjálfara sínum, getur bætt enn einni skrautfjöður í hatt sinn með sigri í kvöld því fyrirfram hefðu fáir búist við því að Ísland ynni riðil með þjóðum á borð við Holland, Tékkland og Tyrkland innanborðs.
Lars Lageräck hefur aldrei tapað fyrir Tyrklandi:
15. júní 2000 (Úrslitakeppni EM 2000)
Svíþjóð - Tyrkland 0-0
7. október 2000 (undankeppni HM 2002)
Svíþjóð - Tyrkland 1-1
5. september 2001 (undankeppni HM 2002)
Tyrkland - Svíþjóð 1-2
6. febrúar 2008 (vináttulandsleikur)
Tyrkland - Svíþjóð 0-0
9. september 2014 (undankeppni EM 2016)
Ísland - Tyrkland 3-0
