"Við byrjuðum mjög vel og fyrri hálfleikurinn var mjög fínn. Við spiluðum mjög vel, vorum ákveðnir og sóttum stíft.
"En ég veit ekki hvað gerðist í seinni hálfleik. Það er erfitt að segja, við verðum að kíkja á myndbandið og sjá hvað gerðist," sagði Birkir eftir leik. Hann segir að íslenska liðið hafi ekki verið of afslappað í stöðunni 2-0.

"Já, þeir voru góðir. Það var engin pressa á þeim og þeir spiluðu góðan bolta og unnu alltof marga seinni bolta."
Íslenska liðið lék án fyrirliða síns, Arons Einars Gunnarssonar, í dag. Birkir segir að fjarvera hans hafi ekki haft úrslitaáhrif í leiknum.
"Við erum með leikmenn sem eiga að geta komið inn. Við vorum ekkert slakir þótt Aron Einar væri ekki á miðjunni. Svona er þetta bara stundum," sagði Birkir sem segir að íslenska liðið stefni enn á að vinna riðilinn en það mætir Tyrklandi í lokaleik sínum í undankeppninni á þriðjudaginn.
"Við viljum vinna þennan riðil og höfum sagt það. Ef það á að gerast þurfum við líklega að vinna leikinn gegn Tyrkjum," sagði Birkir að endingu.