Fótbolti

Arnór Ingvi með mark og stoðsendingu þegar Norrköping tryggði sér titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Ingvi átti frábært tímabil með Norrköping.
Arnór Ingvi átti frábært tímabil með Norrköping. mynd/norrköping
Arnór Ingvi Traustason varð í dag sænskur meistari með Norrköping en liðið bar 0-2 sigurorð af Kára Árnasyni og félögum í Malmö í lokaumferð deildarinnar. Þetta er 13. meistaratitill Norrköping en liðið varð síðast meistari árið 1992.

Arnór fór mikinn í leiknum en hann lagði fyrra mark Norrköping upp fyrir Emir Kujovic eftir hálftíma leik. Kujovic launaði Arnóri svo greiðann þegar hann lagði upp mark fyrir Íslendinginn í uppbótartíma.

Arnór átti frábært tímabil með Norrköping en hann skoraði sjö mörk og átti 10 stoðsendingar í 29 deildarleikjum.

Norrköping, sem endaði í 12. sæti sænsku deildarinnar í fyrra, var með eins stigs forystu á IFK Göteborg fyrir lokaumferðina en Gautaborgarliðið náði aðeins jafntefli gegn Kalmar í dag, 2-2. Hjálmar Jónsson var í byrjunarliði Göteborg og lék fyrstu 88 mínútur leiksins.

Haukur Heiðar Hauksson var ekki í leikmannahópi AIK sem gerði 1-1 jafntefli við Örebro á útivelli en liðið átti möguleika á meistaratitlinum fyrir lokaumferðina.

Hjörtur Logi Valgarðsson og Eiður Aron Sigurbjörnsson léku allan leikinn í vörn Örebro sem átti frábæran endasprett í deildinni. Liðið var taplaust í síðustu níu leikjum sínum, vann sjö og gerði tvö jafntefli.

Örebro endaði í 9. sæti deildarinnar með 37 stig, jafnmörg og Helsingborg en verri markatölu. Arnór Smárason lék allan leikinn fyrir Helsingborg sem tapaði 1-2 fyrir Häcken í dag.

Jón Guðni Fjóluson og Rúnar Már Sigurjónsson voru á sínum stað í byrjunarliði Sundsvall sem tapaði 4-2 fyrir DJurgården á útivelli. Sundsvall endaði í 12. sæti deildarinnar.

Þá tapaði Hammarby, 2-1, fyrir Halmstads á útivelli. Ögmundur Kristinsson stóð í marki Hammarby og Birkir Már Sævarsson lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar. Hammarby endaði í 11. sæti í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×