Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir hafa báðar verið valdar í úrvalslið Evrópu í sundi sem mætir úrvalsliði Bandaríkjanna í Indianapolis í byrjun desember.
Um er að ræða keppnina Duel in the Pool eða Einvígið í lauginni sem fram fer annað hvert ár. Einvígið hófst árið 2003, en í fyrstu þremur keppnunum mættu Bandaríkin liði Ástralíu.
Evrópa hefur mætt Bandaríkjunum síðan 2009, en Bandaríkin hafa unnið allar keppnirnar hingað til. Síðast var keppt í Glasgow fyrir tveimur árum og höfðu Bandaríkin þá nauman sigur eftir að rústa Evrópu 2009 og 2011.
Margir af bestu sundköppum Bandaríkjanna hafa keppt í Einvíginu í lauginni, en nú síðasta var Katie Ledecky á meðal keppenda fyrir tveimur árum. Missy Franklin og Ryan Lochte, margfaldir heims- og Ólympíuverðlaunahafar, kepptu svo fyrir fjórum árum.
Þetta er stór og mikill áfangi fyrir Eygló og Hrafnhildi sem báðar hafa staðið sig frábærlega á árinu. Báðar komust þær í úrslit á HM í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi fyrr á árinu.
Baksundssérfræðingurinn Eygló Ósk komst í úrslit í 200 metra baksundi og Hrafnhildur synti sig í úrslitin í 50 og 100 metra bringusundi.
Einvígið í lauginni fer fram 11.-12. desember í sundlaug háskólans í Indiana. Meira má lesa um það hér.

