Körfubolti

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Stjarnan - Grindavík 87-64 | Arfaslakir Kanalausir Grindvíkingar steinlágu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stjarnan lenti ekki í teljandi vandræðum með Grindavík í leik liðanna í Domino's-deild karla í kvöld og vann öruggan sigur.

Grindavík var án Bandaríkjamannsins Eric Wise sem tók út leikbann í kvöld en eftir ágætan fyrsta leikhluta hrundi leikur liðsins í þeim næsta. Ekki tók betra við í síðari hálfleik.

Stjörnumenn gengu á lagið og héldu Grindvíkingum undir 60 stigum þar til lítið var eftir af leiknum. Gestirnir voru oftar en ekki sjálfum sér verstir en skotnýting liðsins var skelfileg.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir ofan.

Bæði lið hafa nú unnið þrjá sigra í fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni en Grindavík hefur nú tapað tveimur í röð.

Bæði lið hófu leikinn af krafti og spiluðu hraðan og góðan sóknarleik. Fyrsti leikhluti lofaði því góðu en staðan að honum loknum var 23-22, Stjörnumönnum í vil.

En þá kom hrunið hjá Grindavík. Stjarnan herti tökin í varnarleiknum sínum og meiri grimmd og barátta, sem Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur auglýst eftir skilaði sínu og gott betur.

Grindavík fékk reyndar tækifæri til að koma sér almennilega inn í leikinn í upphafi leikhlutans þegar bestu leikmenn Stjörnunnar hvíldu en skotnýting gestanna var skelfileg. Ekki batnaði ástandið þegar þeir Shouse og Coleman komu inn á enda gengu heimamenn á lagið og fóru á mikinn sprett.

Munurinn var átján stig að loknum fyrri hálfleiknum, 48-30, og því ansi brött brekka fram undan fyrir gestina í síðari hálfleik.

Ekki tók betra við þá. Sóknarleikur Grindvíkinga varð jafnvel enn verri og náðu heimamenn að auka á forskotið með því að setja niður auðveldar körfur, hvað eftir annað. Þá varð fljótt ljóst að munurinn yrði óyfirstíganlegur fyrir gestina.

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé um miðjan þriðja leikhluta og tók leikmenn sína einfaldlega af lífi fyrir frammistöðu sína. Hans menn náðu að svara aðeins fyrir sig en það varði í skamma stund. Grindavík skoraði aðeins 64 stig í kvöld og segir það sitt um frammistöðuna.

Stjarnan sýndi að sama skapi flottan leik í kvöld og vann sinn annan sigur í röð eftir að hafa lagt ÍR örugglega í bikarnum. Shouse var algjörlega magnaður þær mínútur sem hann spilaði en Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, gat leyft sér að hvíla hann lengst af í síðari hálfleik.

En það var fyrst og fremst frábær varnarleikur sem skilaði sigri Stjörnunnar í kvöld. Þeir náðu að halda bestu leikmönnum Grindavíkur niðri á löngum köflum. Jón Axel skoraði aðeins fjögur stig og Jóhann Árni tólf. Munar um minna, sérstaklega þar sem Grindavík var án Wise.

Hrafn: Fórum í naflaskoðun

„Þetta var leikur sem við þurftum sannarlega að vinna og það er ekki eins og að við höfum verið að dansa gegn Kanalausum liðum í vetur,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigur sinna manna í kvöld.

Eric Wise var ekki með Grindavík í kvöld en Hrafn segir að það hafi ekki breytt miklu í undirbúningi Stjörnunnar.

„Í raun ekki því við fengum ekki að vita það fyrr en fimm mínútum eftir að síðustu æfingunni okkar fyrir leik lauk [í gærkvöldi].“

„En auðvitað hafði fjarvera hans áhrif á bæði lið. En hverju sem sætir þarf að spila almennilega vörn og taka virkilega á því til að vinna lið Grindavíkur.“

Hann segir að Stjörnumann hafi unnið mikið í varnarleiknum sínum og að hann vilji að Stjarnan verði þekkt sem öflugt varnarlið.

„Við duttum aðeins niður á hælana í þessum þremur deildarleikjum í röð fyrir þennan og við litum hræðilega út í þeim. Við fórum í naflaskoðun og ég held að við séum að byggja upp eitthvað betra núna.“

„Það er líka fínt að geta hætt að vera svona drepleiðinlegur í hverju viðtalinu á fætur öðru,“ bætti hann við og hló. „En ég held að öll lið gangi í gegnum svona tímabil og ég vona að við séum nú búnir að taka út okkar.“

Justin Shouse átti magnaðan leik í kvöld og skilaði flottum tölum. Hrafn telur þó að mesti styrkleiki Shouse liggi í leiðtogahæfileikum hans.

„Hann skoraði 29 stig í þarsíðasta leik en 8-9 í bikarleiknum gegn ÍR. Mér fannst hann mun betri í þeim leik. Í dag var hann mjög góður - leitaði að réttu hlutunum, sótti þegar hann átti að sækja og losaði þegar hann átti að gera það. Hann var frábær.“

Jóhann: Skita hjá aganefnd

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ómyrkur í máli gagnvart aganefnd KKÍ eftir leikinn í kvöld og sagði það algjöra vanvirðingu við bæði lið að tilkynna að leikmaður hafi verið dæmdur í bann minna en sólarhringi fyrir leik.

Eric Wise var vísað úr húsi í síðasta leik Grindavíkur en það var ekki fyrr en í gærkvöldi sem að aganefnd KKÍ úrskurðaði hann í leikbann. Hann var því ekki með í kvöld og Grindavík steinlá fyrir Stjörnunni í Garðabæ, 87-64.

„Við vorum arfaslakir. Við vorum í lagi fyrstu tíu mínúturnar en svo fjaraði undan þessu ansi hratt,“ sagði Jóhann.

„Stjörnumenn voru góðir. Spiluðu sérstaklega góða vörn og voru fastir fyrir. Við létum bara ýta okkur út úr öllum stöðum eins og kettlingar. Það er ekki til útflutnings. Við vorum bara mjúkir, á báðum endum.“

Hann segir að það sé enginn vafi á því að fjarvera Wise hafði mikil áhrif. „Það var ekki síst eftir skituna hjá aganefnd sem var með allt lóðrétt niður sig fyrir þennan leik. Ég fæ úrskurð þess efnis að hann sé í banni klukkan fimm mínútur yfir sjö í gærkvöldi. Það hafði mikil áhrif á allan undirbúning.“

„Það er kannski engin afsökun en við söknuðum hans. Það er klárt mál.“

Hann segir ljóst að aganefnd þurfi að breyta vinnulagi sínu. „Það er alveg ljóst. Þetta er fáránlegt. Þetta riðlar undirbúningi beggja liða og gerir lítið úr því sem bæði lið eru að leggja á sig.“

Jóhann segir þó alltaf ljóst að liðið eigi meira inni en að Grindvíkingar sýndu í kvöld. „Við þykjumst vita hvað fór úrskeðis og hvað við þurfum að laga. Síðustu þrjú árin hefur uppskriftin að tapleikjum alltaf verið sú sama og nú reynir á að menn framkvæmi það sem alltaf er verið að tala um.“

Tómas Tómasson á ferðinni í leiknum í kvöld.Vísir/Ernir
Jóhann Ólafsson.Vísir/Ernir
Hrafn Kristjánsson.Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×