„Við reiðum hátt til höggs og höldum tónleika annað kvöld til að minnast þess að 100 ár eru frá stofnun Karlakórsins Svana. Við erum á tánum og bíðum spennt. Svo erum við svo heppin að fá liðsmenn, hljómsveitina Dúmbó og Steina,“ segir Viðar Einarsson sem er formaður Karlakórsins Svana í dag.
Viðar kann sögu kórsins upp á sína tíu fingur. Hún hófst á því að 10 ungir menn á Skaganum stofnuðu Svani 14. október 1915. „Stjórnandinn var kona, eins og núna, hún hét Petrea Sveinsdóttir,“ segir Viðar og tekur fram að kórinn hafi stundum tekið hlé en blómaskeið hans hafi verið upp úr 1960 þegar Haukur Guðlaugsson hafi stjórnað honum. „Þá þóttu Svanir með betri kórum landsins.“
Lengsti lúr kórsins var frá 1983 til 2012. „Þegar gamlar upptökur með kórnum höfðu verið gefnar út á diski kviknaði neisti og kórinn var endurvakinn, með aðstoð Páls Helgasonar kórstjóra. Síðan tók Valgerður Jónsdóttir við stjórninni, hún er dáð af öllum enda er mjög gaman á æfingum hjá henni,“ segir Viðar og tekur fram að tónleikarnir séu í Grundaskóla annað kvöld, föstudag, og hefjist klukkan 20.30.
Hér fylgir upptaka af laginu Systurnar söltu sem Valgerður Jónsdóttir syngur ásamt Karlakórnum Svönum.
Menning