Knattspyrnusamband Íslands tilkynnti á vef sínum í dag að Ísland muni mæta Finnlandi í vináttulandsleik í Abú Dabí þann 13. janúar.
Í síðustu viku var greint frá því að landsliðið væri á leið til Abú Dabí en nú hefur KSÍ staðfest að landsliðið verði þar í æfingabúðum frá 10. til 17. janúar.
Áætlað er að liðið spili annan æfingaleik þann 16. janúar en enn liggur ekki fyrir hver andstæðingur Íslands verður þá.
Sjá einnig: Strákarnir spila í Abu Dhabi í janúar
Ekki er um alþjóðlega leikdaga að ræða og líklegt að aðeins leikmenn sem spila á Íslandi og hinum Norðurlöndunum geti því tekið þátt í verkefninu.
Ísland og Finnland eru saman í riðli í undankeppni HM 2018 og liðin mætast á Laugardalsvelli þann 6. október á næsta ári.
