Erlent

Heitir því að finna sökudólgana

Samúel Karl Ólason skrifar
Putin á fundi vegna málsins í gærkvöldi.
Putin á fundi vegna málsins í gærkvöldi. Vísir/AFP
Vladimir Putin, forseti Rússlands, segir að þeir sem séu sekir um að hafa komið sprengju fyrir í flugvélinni sem grandað var yfir Sinaiskaga verði refsað, hvar sem þeir feli sig á hnettinum. Rússar ætla að biðja önnur ríki um aðstoða við að hafa upp á sökudólgunum.

Rússar hafa heitið 50 milljón dölum fyrir upplýsingar um sökudólgana.

„Þetta morð á löndum okkar yfir Sinaiskaga er meðal blóðugustu glæpa. Við munum ekki þurrka tárin af sálum okkar og hjörtum. Þetta verður með okkur að eilífu,“ sagði Putin á fundi í gærkvöldi. „Það mun hins vegar ekki koma í veg fyrir að við munum finna og refsa þessum glæpamönnum.“

Flugvélin sem var gerð út af Metrojet í Rússlandi var á leið frá Sharm el-Sheikh í Egyptalandi til St. Pétursborgar þegar sprengja sprakk um borð skömmu eftir flugtak. Alls voru 224 um borð í vélinni og allir létu lífið. Íslamska ríkið segist hafa grandað vélinni.

Sjá einnig: Rússneska vélin var sprengd í loft upp.

AP fréttaveitan segir frá því að Putin hafi beðið hershöfðingja sína um að finna leiðir til að auka loftárásir þeirra í Sýrlandi. Hins vegar standi ekki til að senda hermenn þangað. Rússar hafa nú gert loftárásir í Sýrlandi frá því í september, en Íslamska ríkið sagði sprengjunni hafa verið komið fyrir vegna þessa.

Í gær sagði Francois Hollande, forseti Frakklands, að hann mundi funda með Putin og Barack Obama á næstu dögum um næstu skref í baráttunni gegn ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×