Fótbolti

Tuchel um varnarmistök Dortmund: „Skítur skeður“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Tuchel vann fyrsta nágrannaslaginn gegn Schalke sem þjálfari Dortmund.
Thomas Tuchel vann fyrsta nágrannaslaginn gegn Schalke sem þjálfari Dortmund. vísir/getty
Thomas Tuchel, þjálfara Dortmund í þýsku 1. deildinni, datt ekki í hug að gagnrýna miðvarðapar sitt fyrir mistökin sem það gerði í 3-2 sigrinum gegn Schalke á sunnudaginn.

Þjóðverjinn Mats Hummels og Grikinn Sokratis Papastathopoulos gáfu sitthvort markið í leiknum en það kom ekki að sök þar sem Dortmund vann erkifjendur sína í þessum hatramma nágrannaslag.

„Við gerðum tvenn mistök sem gáfu þeim mörk. Þetta gerist kannski einu sinni á ári,“ sagði Tuchel.

Hann gaf lítið fyrir tilraunir blaðamanna að fá hann til að gagnrýna leikmenn sína og sagði einfaldlega: „Papa sagði mér að hann sá boltann seint. Þannig leit þetta út fyrir mér. Skítur skeður.“

Tuchel, sem tók við Dortmund af Jürgen Klopp, hefur byrjað frábærlega með liðið. Dortmund er í öðru sæti deildarinnar, búið að vinna átta leiki í röð, komið upp úr sínum riðli í Evrópudeildinni og búið að skora ríflega 70 mörk í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×