Erlent

Hlýnun komin í eins stigs markið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mengunin í Kína hefur náð nýjum hæðum undanfarna daga, en útblástur gróðurhúsalofttegunda á stóran þátt í hættulega hraðri hlýnun andrúmsloftsins.
Mengunin í Kína hefur náð nýjum hæðum undanfarna daga, en útblástur gróðurhúsalofttegunda á stóran þátt í hættulega hraðri hlýnun andrúmsloftsins. Fréttablaðið/EPA
Breska veðurstofan fullyrðir að hitastigið árið 2015 verði meira en einu stigi yfir meðaltalshita áranna 1850-1990. Þar með er eins stigs hlýnun í fyrsta sinn náð.

Á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna hefur verið gengið út frá því að hækki hitastigið um tvær gráður frá því sem það hafði verið árin fyrir 1990, þá sé hættulegum þröskuldi náð. Þess vegna verði að stefna að því að stöðva hlýnun jarðar eða hægja nægilega mikið á henni áður en þessu tveggja stiga marki er náð.

Að sögn bresku veðurstofunnar hefur hitastigið fyrstu níu mánuði ársins verið 1,02 stigum yfir þessu viðmiðunarmeðaltali. Allar líkur standi því til þess að árið í heild verði yfir eins stigs markinu.

Auk almennrar loftslagshlýnunar á veðurfyrirbrigðið El Niño, sem er óvenju sterkt þetta árið, sinn þátt í að þessu marki verður náð.

Frá þessu er skýrt á fréttasíðum BBC og þar jafnframt fullyrt að þessar upplýsingar verði til þess að auka enn frekar á nauðsyn þess að samkomulag um aðgerðir takist á loftslagsráðstefnunni í París, sem hefst nú í lok mánaðarins.

Þar er einnig haft eftir Miles Allen, prófessor við Oxford-háskóla, að nákvæmlega hvenær eins stigs markinu er náð skipti ekki öllu máli, heldur sé það heildarþróunin sem horfa þurfi á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×