Baksýnisspegillinn Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 29. nóvember 2015 11:00 Hjördís, dóttir hennar, Marína Sigurgeirsdóttir, og Rebekka og Elísabet Harðardætur. Hjördís Kristjánsdóttir, kennari og bóndi í Bárðardal, rifjar hér upp jólin og jólaundirbúninginn eins og hann var til sveita á fyrri hluta síðustu aldar. Lítið fór fyrir gjöfum og skrauti en þeim mun meira var lagt upp úr góðum mat. Ég fæddist árið 1930 og ólst upp frá tveggja ára aldri hjá góðu frændfólki á sveitabæ inn til dala á Norðurlandi. Ég átti góða bernsku og æsku en ekki veit ég hvort barnabörnunum mínum og hvað þá langömmubörnunum litist á þá veröld sem heimurinn minn var þá, ef þeim væri skyndilega kippt inn í hana. Eitt er þó líklega óbreytt. Ennþá hlakka börn til jólanna,“ segir Hjördís Kristjánsdóttir, fyrrverandi kennari og bóndi í Bárðardal, þegar hún er beðin um að rifja upp bernskujólin. Við gefum henni orðið:Undirbúningur hófst að haustiÞað mátti segja að jólaundirbúningurinn byrjaði strax í sláturtíð að haustinu. Þá var stundum einni gamalánni gefið líf fram að jólum svo hægt væri að hafa nýtt kjöt í súpu og steik yfir hátíðarnar. Ef efni voru til voru tekin örfá læri, kjötið skorið í sneiðar, barið með buffhamri, pönnusteikt og soðið niður. Þarna var komin jólasteik, ef önnur brást, en þetta var fyrir daga frystikistu og ísskápa. Hangiketið fullreykt var geymt í reykhúsinu, jafnvel langt fram eftir næsta sumri. Svo var hugað að fötum. Gaman að börn fengju nýja flík „svo þau klæddu ekki köttinn“, en ekki sáluhjálparatriði með fullorðna. Fatnaður var yfirleitt heimaunninn, saumaður eða prjónaður. Krakkinn ég kominn úr jólabaðinu í nýjum vélprjónuðum ullarnærfötum og vélprjónuðum ullarsokkum upp á mitt lær, í heimasaumuðu léreftskoti og grár teygjuborði með hnappagötum voru sokkaböndin. Mig klæjar ennþá af minningunni. Hjördís 9 ára. Skellir í kökukeflum Þegar kom fram í desember var farið að huga að bakstri. Kvenfólkið á bænum var húsmæðraskólagengið og nú voru handskrifuðu uppskriftabækurnar teknar fram. Sykurkökur, öðru nafni gyðingakökur, piparkökur, hálfmánar, smjörkökur, kleinur, hvít og brún lagterta og botnar fyrir rjómatertu auk vandaðrar jólaköku með rúsínum og kardimommum. Pottbrauð, flatbrauð og hveitibrauð, að ógleymdu laufabrauðinu en það tók heilan dag með aðstoð sem flestra heimilismanna. Þá fór kvenfólkið eldsnemma á fætur, bjó til deig og byrjaði að breiða út áður en farið var í fjós. Það var spennandi að vakna að morgni laufabrauðsdagsins við skellina í kökukeflunum en hljóðbært var frá eldhúsinu í kjallaranum gegnum timburgólfið. Kökurnar voru svo þunnar að það átti að mega lesa gegnum þær. Ýmsir, bæði konur og karlar, lögðu mikinn metnað í fallegan útskurð og skáru alls kyns mynstur: jólatré, kerti, átta- og jafnvel upp í þrjátíu og tveggja blaða rós. Ég man eftir manni sem sagðist hafa skorið sextíu og fjögurra blaða rós, en þá var nú skurðurinn orðinn smár. Eitthvað á annað hundrað kökur voru skornar og steiktar í tólg. Ilmandi hangikjöt Ekki tíðkuðust stórhreingerningar en þó voru þvegnir gluggar, hurðir og tekið til í skúffum og skápum, sópað og tekið til í skotum og rusli brennt. Á Þorláksmessu var skipt á öllum rúmum og jólarúmfötin sett utan um, hvít damaskver með útsaumi eða hekluðum milliverkum. Á Þorláksmessu voru líka þvegin gólf, fægð hnífapör og aðrir munir sem fallið hafði á, malað kaffi til jóladaganna og svo fóru sem flestir í bað. Einhverjir biðu til aðfangadags ef ekki var hægt að anna vatnshituninni. Þegar suðan var komin upp á hangiketinu og ilmurinn blandaðist lykt af fægilegi, hreingerningalykt og lykt af brenndum eini sem stundum var með í þessari lyktarsinfóníu, þá voru jólin á næsta leiti. Jólagjafir sem slíkar voru fáar, helst einhverju stungið að börnum. Jólaskraut þekktist ekki og jólatré var ekki annað en grænmálaður stofn um 30-40 sentímetra langur. Í hann voru boraðar holur sem mátti svo stinga sívölum spýtum með kertastjaka fyrir lítil kerti. Ekki voru lengur steypt tólgarkerti í barnsminni mínu. Jólakertin voru áreiðanlega keypt í „kaupfélaginu“ eins og allt annað. Aðfangadagur Tilhlökkunin eftir kvöldinu var nærri óbærileg. Miðdagsmaturinn, sem venjulega var um klukkan þrjú eftir hádegi, á nú ekki að vera fyrr en klukkan sex síðdegis um leið og hátíðin gengur í garð. Matreiðslan fer fram í eldhúsinu í kjallaranum en nú er stofuborðið á efri hæðinni stækkað eins og hægt er og mjallhvítur dúkur breiddur á það. Sparistellið er sótt og lagt á borðið ásamt hnífapörum, brúðargjöf frá árinu 1896 en vel varðveitt. Allir eru komnir í sparifötin, karlmenn í dökk jakkaföt, hvítar skyrtur og hálstau. Eldri konur í upphlut eða peysufötum, yngri í kjólum, blússum eða pilsum og með drifhvítar svuntur. Búið er að kveikja á stórum kertum í stjökum. Aftansöngur frá Dómkirkjunni í Reykjavík er að hefjast í útvarpinu. Dómkórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar syngur jólasálmana. „Í dag er glatt í döprum hjörtum.“ Senn flytur séra Bjarni Jónsson jólahugleiðingu. Það er alltaf eins og hann sé svolítið reiður en svo hljómar „Heims um ból“. svo fallega í lokin. Fólkið matast hljóðlega og hlustar á messuna. Fyrsti rétturinn er þykkur hrísgrjónagrautur með kanilsykri og með honum borin mjólk eða saftblanda en sumir fá sér smjörkúlu og láta bráðna í honum. Með grautnum er líka laufabrauð og kalt hangiket. Á eftir kemur svo stórsteikin. Læri eða bóg er skipt í bita sem brúnaðir eru í fitu á öllum köntum. Saltað og kryddað með piparberjum, negulnöglum og lárviðarlaufi. Með þessu er brún sósa, brúnaðar kartöflur og rabarbarasulta. Á eftir mat og messu býður fólkið hvert öðru gleðileg jól. Seinna um kvöldið er drukkið kaffi og súkkulaði með öllum kökutegundunum sem búið er að baka. Aldrei var messað í sóknarkirkjunni á aðfangadagskvöld og aldrei aftansöngur um hátíðarnar. Messað var á jóladag, annan í jólum eða nýársdag ef veður og færð leyfðu. Það fór þó ekki framhjá neinum að Jesú hafði fæðst á jólunum og orðið frelsari og fyrirmynd manna og þess vegna voru haldin jól. Það var gott að hátta södd og sæl í drifhvíta hreina rúmið eftir allan spenninginn, lesa bænirnar sínar og sofna á augnabliki. Jól Jólafréttir Mest lesið Rauðkál með beikoni eða kanil Jól Verður ekki mikið vör við jólahátíðina Jól Jólin eru drengjakórar Jól Saltpækill gerir kalkúna safaríkari Jól Jólalag dagsins: Notalega jólalagið Notalegt með meðlimum GÓSS Jól Ömmumatur sem klikkar aldrei Jól Lyfti samfélaginu upp á annað plan Jól Jólalag dagsins: Hátíð í bæ með Hauki Heiðari í Diktu Jól Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu - 4. desember Jól Engin jól án dönsku eplakökunnar Jól
Hjördís Kristjánsdóttir, kennari og bóndi í Bárðardal, rifjar hér upp jólin og jólaundirbúninginn eins og hann var til sveita á fyrri hluta síðustu aldar. Lítið fór fyrir gjöfum og skrauti en þeim mun meira var lagt upp úr góðum mat. Ég fæddist árið 1930 og ólst upp frá tveggja ára aldri hjá góðu frændfólki á sveitabæ inn til dala á Norðurlandi. Ég átti góða bernsku og æsku en ekki veit ég hvort barnabörnunum mínum og hvað þá langömmubörnunum litist á þá veröld sem heimurinn minn var þá, ef þeim væri skyndilega kippt inn í hana. Eitt er þó líklega óbreytt. Ennþá hlakka börn til jólanna,“ segir Hjördís Kristjánsdóttir, fyrrverandi kennari og bóndi í Bárðardal, þegar hún er beðin um að rifja upp bernskujólin. Við gefum henni orðið:Undirbúningur hófst að haustiÞað mátti segja að jólaundirbúningurinn byrjaði strax í sláturtíð að haustinu. Þá var stundum einni gamalánni gefið líf fram að jólum svo hægt væri að hafa nýtt kjöt í súpu og steik yfir hátíðarnar. Ef efni voru til voru tekin örfá læri, kjötið skorið í sneiðar, barið með buffhamri, pönnusteikt og soðið niður. Þarna var komin jólasteik, ef önnur brást, en þetta var fyrir daga frystikistu og ísskápa. Hangiketið fullreykt var geymt í reykhúsinu, jafnvel langt fram eftir næsta sumri. Svo var hugað að fötum. Gaman að börn fengju nýja flík „svo þau klæddu ekki köttinn“, en ekki sáluhjálparatriði með fullorðna. Fatnaður var yfirleitt heimaunninn, saumaður eða prjónaður. Krakkinn ég kominn úr jólabaðinu í nýjum vélprjónuðum ullarnærfötum og vélprjónuðum ullarsokkum upp á mitt lær, í heimasaumuðu léreftskoti og grár teygjuborði með hnappagötum voru sokkaböndin. Mig klæjar ennþá af minningunni. Hjördís 9 ára. Skellir í kökukeflum Þegar kom fram í desember var farið að huga að bakstri. Kvenfólkið á bænum var húsmæðraskólagengið og nú voru handskrifuðu uppskriftabækurnar teknar fram. Sykurkökur, öðru nafni gyðingakökur, piparkökur, hálfmánar, smjörkökur, kleinur, hvít og brún lagterta og botnar fyrir rjómatertu auk vandaðrar jólaköku með rúsínum og kardimommum. Pottbrauð, flatbrauð og hveitibrauð, að ógleymdu laufabrauðinu en það tók heilan dag með aðstoð sem flestra heimilismanna. Þá fór kvenfólkið eldsnemma á fætur, bjó til deig og byrjaði að breiða út áður en farið var í fjós. Það var spennandi að vakna að morgni laufabrauðsdagsins við skellina í kökukeflunum en hljóðbært var frá eldhúsinu í kjallaranum gegnum timburgólfið. Kökurnar voru svo þunnar að það átti að mega lesa gegnum þær. Ýmsir, bæði konur og karlar, lögðu mikinn metnað í fallegan útskurð og skáru alls kyns mynstur: jólatré, kerti, átta- og jafnvel upp í þrjátíu og tveggja blaða rós. Ég man eftir manni sem sagðist hafa skorið sextíu og fjögurra blaða rós, en þá var nú skurðurinn orðinn smár. Eitthvað á annað hundrað kökur voru skornar og steiktar í tólg. Ilmandi hangikjöt Ekki tíðkuðust stórhreingerningar en þó voru þvegnir gluggar, hurðir og tekið til í skúffum og skápum, sópað og tekið til í skotum og rusli brennt. Á Þorláksmessu var skipt á öllum rúmum og jólarúmfötin sett utan um, hvít damaskver með útsaumi eða hekluðum milliverkum. Á Þorláksmessu voru líka þvegin gólf, fægð hnífapör og aðrir munir sem fallið hafði á, malað kaffi til jóladaganna og svo fóru sem flestir í bað. Einhverjir biðu til aðfangadags ef ekki var hægt að anna vatnshituninni. Þegar suðan var komin upp á hangiketinu og ilmurinn blandaðist lykt af fægilegi, hreingerningalykt og lykt af brenndum eini sem stundum var með í þessari lyktarsinfóníu, þá voru jólin á næsta leiti. Jólagjafir sem slíkar voru fáar, helst einhverju stungið að börnum. Jólaskraut þekktist ekki og jólatré var ekki annað en grænmálaður stofn um 30-40 sentímetra langur. Í hann voru boraðar holur sem mátti svo stinga sívölum spýtum með kertastjaka fyrir lítil kerti. Ekki voru lengur steypt tólgarkerti í barnsminni mínu. Jólakertin voru áreiðanlega keypt í „kaupfélaginu“ eins og allt annað. Aðfangadagur Tilhlökkunin eftir kvöldinu var nærri óbærileg. Miðdagsmaturinn, sem venjulega var um klukkan þrjú eftir hádegi, á nú ekki að vera fyrr en klukkan sex síðdegis um leið og hátíðin gengur í garð. Matreiðslan fer fram í eldhúsinu í kjallaranum en nú er stofuborðið á efri hæðinni stækkað eins og hægt er og mjallhvítur dúkur breiddur á það. Sparistellið er sótt og lagt á borðið ásamt hnífapörum, brúðargjöf frá árinu 1896 en vel varðveitt. Allir eru komnir í sparifötin, karlmenn í dökk jakkaföt, hvítar skyrtur og hálstau. Eldri konur í upphlut eða peysufötum, yngri í kjólum, blússum eða pilsum og með drifhvítar svuntur. Búið er að kveikja á stórum kertum í stjökum. Aftansöngur frá Dómkirkjunni í Reykjavík er að hefjast í útvarpinu. Dómkórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar syngur jólasálmana. „Í dag er glatt í döprum hjörtum.“ Senn flytur séra Bjarni Jónsson jólahugleiðingu. Það er alltaf eins og hann sé svolítið reiður en svo hljómar „Heims um ból“. svo fallega í lokin. Fólkið matast hljóðlega og hlustar á messuna. Fyrsti rétturinn er þykkur hrísgrjónagrautur með kanilsykri og með honum borin mjólk eða saftblanda en sumir fá sér smjörkúlu og láta bráðna í honum. Með grautnum er líka laufabrauð og kalt hangiket. Á eftir kemur svo stórsteikin. Læri eða bóg er skipt í bita sem brúnaðir eru í fitu á öllum köntum. Saltað og kryddað með piparberjum, negulnöglum og lárviðarlaufi. Með þessu er brún sósa, brúnaðar kartöflur og rabarbarasulta. Á eftir mat og messu býður fólkið hvert öðru gleðileg jól. Seinna um kvöldið er drukkið kaffi og súkkulaði með öllum kökutegundunum sem búið er að baka. Aldrei var messað í sóknarkirkjunni á aðfangadagskvöld og aldrei aftansöngur um hátíðarnar. Messað var á jóladag, annan í jólum eða nýársdag ef veður og færð leyfðu. Það fór þó ekki framhjá neinum að Jesú hafði fæðst á jólunum og orðið frelsari og fyrirmynd manna og þess vegna voru haldin jól. Það var gott að hátta södd og sæl í drifhvíta hreina rúmið eftir allan spenninginn, lesa bænirnar sínar og sofna á augnabliki.
Jól Jólafréttir Mest lesið Rauðkál með beikoni eða kanil Jól Verður ekki mikið vör við jólahátíðina Jól Jólin eru drengjakórar Jól Saltpækill gerir kalkúna safaríkari Jól Jólalag dagsins: Notalega jólalagið Notalegt með meðlimum GÓSS Jól Ömmumatur sem klikkar aldrei Jól Lyfti samfélaginu upp á annað plan Jól Jólalag dagsins: Hátíð í bæ með Hauki Heiðari í Diktu Jól Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu - 4. desember Jól Engin jól án dönsku eplakökunnar Jól