Fótbolti

Hertha ætlar að spila handboltavörn gegn Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pal Dardai er þjálfari Herthu Berlínar.
Pal Dardai er þjálfari Herthu Berlínar. Vísir/Getty
Yfirburðir Bayern München í Þýskalandi eru gríðarlega miklir eins og síðsutu ár. Liðið er í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 37 stig af 39 mögulegum og markatöluna 40-5.

Hertha Berlín hefur komið mörgum á óvart með góðri frammistöðu í haust en liðið er í fjórða sæti deildrainnar með 23 stig. Ekki nema fjórtán stigum á eftir toppliði Bayern.

Berlínarliðið mætir í heimsókn á Allianz Arena þar sem Bayern hefur unnið alla sína leiki í haust. Markatala liðsins þar í sjö deildarleikjum er 28-3 og í þremur Meistaradeildarleikjum er hún 14-1.

Pal Dardai, þjálfari Herthu, ætlar því að reyna eitthvað nýtt í leiknum gegn Bayern um helgina ef marka má frétt Bild í dag.

Hertha ætlar að sækja innblástur til handboltaíþróttarinnar og stilla upp varnarmúr í kringum vítateiginn með markvörðinn fyrir aftan. Allir munu verjast nema einn sóknarmaður sem á svo að sjá um skyndisóknirnar.

„Leikfræðin er til staðar. Við munum láta okkur detta eitthvað í hug,“ var haft eftir Dardai. „Bayern er eitt besta lið heims en við förum þangað í góðu skapi og með sjálfstraustið í lagi. Við þurfum ekki að fela okkur.“

Ljóst er að leikurinn á laugardag yrði eftirtektarverður í meira lagi ef spádómur Bild reynist réttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×