Öryggissveitir í Malí leita nú að þremur mönnum í tengslum við árásina í Bamako, höfuðborginni, í gær. Ekki liggur fyrir hvort um sé að ræða tilræðismennina sjálfa eða skipuleggjendur árásarinnar.
Tuttugu og einn féllu í gær; nítján óbreyttir borgarar og tveir árásarmenn, þegar gíslatökumenn réðust inn á Radison Blu, vinsælt lúxushótel í borginni, og tóku á annað hundrað manns gíslingu. Ekki er vitað hversu margir gíslatökumennirnir voru, en vitni segja þá þrettán talsins. Þeir hafi ekið upp að hótelinu með númeraplötur frá sendiráðum og hafið skothríð á öryggisverði fyrir utan hótelið.
Á meðal hinna látnu voru þrír kínverskir kaupsýslumenn, einn Bandaríkjamaður og nokkrir Rússar, en nánari fregna er beðið frá stjórnvöldum í Malí. Þá komust þrír Bretar lífs af.
Franskir hermenn tóku þátt í aðgerðunum og stóð umsátrið yfir í um sjö klukkustundir.
Ódæðið hefur víða verið fordæmt, meðal annars af forseta landsins, Ibrahim Boubacar Keita, sem lýsti í dag yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu. Þá hefur tíu daga neyðarástandi jafnframt verið lýst yfir.
Vígamenn úr röðum íslamista eru sagðir hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu. Samkvæmt BBC er um að ræða Al Kaída og samtök sem nefnast Al Murabitun, sem hafa tengsl við Al Kaída.

