Sport

Eygló: Langt fram úr mínum væntingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló Ósk er tveimur bronsmedalíum ríkari eftir EM.
Eygló Ósk er tveimur bronsmedalíum ríkari eftir EM. vísir/vilhelm
Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Ægi, var skiljanlega hin kátasta þegar Vísir heyrði í henni hljóðið fyrir skemmstu; skömmu eftir úrslitasundið í 200 metra baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem nú stendur yfir í Netanya í Ísrael.

Eygló kom þriðja í mark og nældi sér þar með í sín önnur bronsverðlaun á jafnmörgum dögum en í gær vann hún brons í 100 metra baksundi.

„Mér líður smá eins og ég sé ekki á jörðinni,“ sagði Eygló þegar hún var búin að fá bronsmedalíuna.

„Mér líður eins og sé að dreyma og þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ bætti sundkonan öfluga við.

Hún viðurkenndi að það hefði verið erfitt að ná sér niður eftir gærdaginn en árangurinn þá kom henni sjálfri á óvart.

„Það var það en þetta kom þegar ég náði að sofna. Ég vaknaði svo bara tilbúin fyrir næsta sund í morgun,“ sagði Eygló sem synti á 2:03,53 mínútum í úrslitunum og bætti þar með Íslandsmetið sem hún setti í undanrásunum í morgun.

Sjá einnig: Ég barðist við tárin á pallinum

Hún segist hafa sett stefnuna á að enda í efstu fimm sætunum í 200 m baksundinu, sem er hennar aðalgrein.

„Markmiðið var að vera í topp fimm í 200 m baksundinu og komast í úrslit í 100 m baksundinu, þannig að ég fór langt fram úr mínum eigin væntingum,“ sagði Eygló lýkur leik á EM þegar hún keppir í 50 m baksundi á morgun.

Nánar verður rætt við Eygló í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×