Inga Elín Cryer náði sér ekki á strik í 800 metra skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Netanya í Ísrael þegar hún hóf keppni á mótinu í morgun.
Inga Elín synti á 8:52,22 mínútum og var 34,54 sekúndum á eftir Ungverjanum Boglarku Kapas sem var með besta tímann. Inga Elín varð í 23. sæti.
Inga Elín var talsvert frá sínum besta enda rúmum þrettán sekúndum frá íslandsmeti sínu sem hún setti 4. desember 2014 í Doha.
Inga Elín kom í mark síðustu í sínum riðli og var á endanum með lélegasta tímann af öllum þeim sem kláruðu að synda alla 800 metrana.
Inga Elín mun keppa í þremur öðrum greinum á mótinu því hún mun einnig synda 200 og 400 metra skriðsund sem og 200 metra flugsund.
Eygló Ósk Gústafsdóttir syndir í milliriðli í 100 metra baksundi seinni partinn en Eygló náði áttunda besta tímanum í undanrásunum í morgun.
