Innlent

Silja Dögg bara talað í sex og hálfa mínútu

Sveinn Arnarsson skrifar
Alþingi Steingrímur J. Sigfússon hefur talað mest allra á yfirstandandi þingi. Hefur hann haldið 210 ræður og talað í þeim í 11,4 klukkustundir. Þingmenn stjórnarandstöðunnar raða sér í efstu sætin.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti því að ljúka síðastliðinn föstudag. Við það tækifæri tók Fréttablaðið saman ræðutíma þingmanna frá upphafi þings í byrjun september. Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru í fjórum af fimm efstu sætunum auk Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

„Ég hef nú verið á þessum lista áður og svo sem ekki nýtt fyrir mér,“ sagði Steingrímur Sigfússon þegar honum var greint frá því að hann hefði talað lengst allra á þinginu. „Ég hef lagt áherslu á að rækja skyldur mínar í þessum efnum og haft ræður mínar innihaldsríkar svo þær geti nýst sem aðhald. Það væri óskandi að stjórnarmeirihlutinn væri duglegri við að mæta og hlýða á ræðurnar.“ Hann vísaði á bug að um einhvers konar málþóf væri að ræða heldur þyrfti að ræða um helstu ágreiningsefni við stjórnvöld hverju sinni.

Af þeim fimm sem minnst hafa talað er einn úr Sjálfstæðisflokki og fjórir þingmenn Framsóknarflokksins, þar af þrír þeirra úr sama kjördæminu. Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur haldið fjórar ræður á yfirstandandi þingi og talað í sex og hálfa mínútu.

„Ég hef bara einhvern veginn ekkert verið í þeim stóru málum sem hafa tekið mestan tíma á þessu þingi. Ég hef ekkert verið í fjárlagaumræðunni því ég er ekki í fjárlaganefnd. Það er þumalputtaregla að einhver úr nefndinni tali fyrir málum á þingi. Ef maður tekur saman tíma sem þingmenn tala þá er stjórnarandstaðan með miklu fleiri mínútur og ekkert bundið við þetta þing,“ segir Silja Dögg en segir fullt málfrelsi vera innan flokksins á þingi. 

„Þú mátt alveg fara upp og tala, það er ekkert bannað. Ef ég vildi tala um flugvelli eða eitthvað slíkt þá gæti ég gert það, en ég vil hins vegar bæta einhverju við það sem kollegar mínir hafa sagt áður. Ég er ekki að tala bara til að tala og safna þannig mínútum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×