Gareth Bale, framherji Real Madrid, óttast ekki að mæta Englandi á EM 2016 þar sem hann verður í eldlínunni með velska landsliðinu.
Wales er á leið á sitt fyrsta stórmót síðan 1958, en Bale tókst að gera það með velska landsliðinu sem Ryan Giggs tókst aldrei.
Drátturinn fyrir riðlakeppnina fer fram á morgun og segist Bale ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að mæta Englandi.
„Ef við lendum í sama riðli og England verð ég glaður. Hvers vegna ekki? Við teljum okkur geta unnið England. Öll pressan væri á þeim,“ segir Bale.
„Það verður engin pressa á okkur. Við förum bara á EM til að hafa gaman og reyna gera velsku þjóðina stolta. Það er það eina sem við getum gert og það eina sem stuðningsmennirnir geta beðið um,“ segir Gareth Bale.
Bale: Wales getur unnið England á EM
Tómas Þór Þórðarson skrifar
