Erlent

Töluvert hefur áunnist og drög að samningi kynnt

Svavar Hávarðsson skrifar
Laurent Fabius, og aðrir ráðamenn franskir, hafa lagt allt undir til að ráðstefnan skili loftslagssamningi.
Laurent Fabius, og aðrir ráðamenn franskir, hafa lagt allt undir til að ráðstefnan skili loftslagssamningi. Nordicphotos/AFP
Forseti Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21), Laurent Fabius, kynnti í gær ný drög að hnattrænum samningi um aðgerðir í loftslagsmálum, með þátttöku allra ríkja.

Í ræðu á stuttum fundi við það tilefni, þar sem samningsdrögunum var dreift, sagði Fabius að búið væri að ná saman að mestu leyti um mikilvæg atriði, til dæmis hvernig standa skuli að aðlögun að loftslagsbreytingum.

Enn á þó eftir að komast að niðurstöðu um fjármögnun aðgerða, eftirfylgni með markmiðum ríkja til lengri tíma og ábyrgðarskiptingu milli ríkja og ríkjahópa.  

Drögin nú eru miklum mun skýrari en þau sem viðræðuhópur skilaði til þingsins um síðustu helgi og dregur betur fram kosti varðandi helstu ágreiningsefni. Fabius sagði að vel hefði miðað, en enn væri þó mikil vinna eftir á lokasprettinum. Ráðstefnunni lýkur á morgun, en Hugi Ólafsson, formaður íslensku samninganefndarinnar, hefur sagt það næsta víst að þingað verði inn í helgina. Reynslan hafi sýnt frá fyrri ráðstefnum að sjaldnast er hjá því komist.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir í fréttatilkynningu að það sé ánægjulegt að kominn sé skriður á viðræðurnar. „Tilfinningin er sú að nú þokist hratt í samkomulagsátt en björninn er þó ekki unninn. Þótt búið sé að landa mikilvægum atriðum er varða einstaka þætti samningsins á eftir að tengja þá saman og búa til heildarramma utan um nýtt samkomulag. Næstu sólarhringar fara í að sníða þennan ramma og ég er vongóð um að það takist.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×