Erlent

Írakski herinn kominn inn í Ramadi

Atli Ísleifsson skrifar
Vígamenn ISIS hafa ráðið yfir borginni Ramadi frá því í maí og þótti fall borgarinnar mikil niðurlæging fyrir írakska herinn.
Vígamenn ISIS hafa ráðið yfir borginni Ramadi frá því í maí og þótti fall borgarinnar mikil niðurlæging fyrir írakska herinn. Vísir/AFP
Írakskar öryggissveitir sækja nú hart inn í miðborg Ramadi og hafa nú þegar náð tveimur hverfum á sitt vald og sótt inn í tvö til viðbótar.

Í frétt BBC kemur fram að öryggissveitirnar stefni nú að stærstu stjórnsýslubyggingu borgarinnar og hafa sjálfsvígssprengjumenn og leyniskyttur á vegum ISIS beitt sér gegn sókn öryggissveitanna.

Vígamenn ISIS hafa ráðið yfir borginni frá því í maí og þótti fall borgarinnar mikil niðurlæging fyrir írakska herinn, en talið er að um tvö hundruð vígamenn hafi tekið borgina af um tíu sinnum fleiri hermönnum.

Herinn dreifði á sunnudaginn miðum yfir borgina þar sem íbúar borgarinnar voru hvattir til að yfirgefa hana. Fregnir bárust af því að vígamenn hefðu komið í veg fyrir að íbúar gætu yfirgefið borgina og vildu þeir nota fólkið sem hlífðarskildi.

Ramadi er um níutíu kílómetrum vestur af höfuðborginni Bagdad og hafa írakskar öryggissveitir setið um borgina síðasta mánuðinn og stöðvað birgðaleiðir ISIS-liða inn í borgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×