Þakklæti og hvatning efst í huga Magnús Guðmundsson skrifar 22. janúar 2015 13:30 Þær Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir tóku við Fjöruverðlaununum í gær og eru hér kampakátar með Degi Eggertssyni borgarstjóra. Vísir/Stefán Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt í níunda skipti við hátíðlega athöfn í Höfða síðdegis í gær. Tilgangur Fjöruverðlaunanna er að stuðla að aukinni kynningu á ritverkum kvenna og hvetja konur í rithöfundastétt til dáða. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramikegg eftir listakonuna Koggu en að þessu sinni steig frú Vigdís Finnbogadóttir á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði. Veitt eru verðlaun í þremur flokkum; fagurbókmenntum, barna- og unglingabókmenntum og fræðibóka og rita almenns eðlis. Sigurvegari í flokki fagurbókmennta að þessu sinni er Elísabet Jökulsdóttir fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Ljóð Elísabetar lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn. „Það ríkir bara rosaleg gleði og hamingja með þessi verðlaun enda voru þetta allt góðar bækur sem voru tilnefndar í ár,“ segir Elísabet, sem vann reyndar einnig til Fjöruverðlauna árið 2007. „Þessi viðurkenning skiptir máli og þá ekki síst upp á umræðuna um það sem ég er að takast á við í mínum ljóðum. Margir upplifa þessi mál sem hafa verið svo mikið tabú í samfélaginu svo lengi og ef þetta hjálpar í þeirri umræðu þá gleður það mig. Ég gæti reyndar gefið út annað bindi af Ufsakletti og á líka til efni í sambúðina. Mig langar til þess að vinna með þessa innilokun og ofbeldið. Ég vaknaði reyndar á jóladag með hugmynd að bók um mennskuna og hún á að vera svona doðrantur eins og strákarnir eru alltaf að senda frá sér. Málið er að ég ætla að láta þetta vinna með mér og ég er mjög stolt af þessum verðlaunum. Það er athyglisvert að í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fara verðlaunin til bókar þar sem tekist er á við mál sem skyld eru Ufsakletti Elísabetar. Ofbeldi á heimili – með augum barna, ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir. Guðrún segir Fjöruverðlaunin vera myndarlegt framtak og þar sem hér sé fjallað um efni sem snerti ekki síst konur hafi þessi verðlaun sérstaka þýðingu. „Við höfum verið að fá ágætis viðbrögð og vonum að bókin verði notuð í háskólakennslu innan skamms auk þess sem við erum að senda mikilvæg skilaboð inn í menntakerfið í heild. Að skoða heimilisofbeldi út frá sjónarhorni barna er frumkvöðlastarf á Íslandi og við teljum mikilvægt að koma því á framfæri við fagstéttir á borð við félagsþjónustu og lögreglu að tala við börnin á vettvangi og huga að þeim sérstaklega.“ Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur hlýtur Fjöruverðlaunin í ár í flokki barna- og unglingabókmennta. Þar er einnig m.a. annars unnið með sjónarhorn barnsins, fjallað um samskipti kynslóða og heimur eldri borgara gerður áhugaverður og spennandi fyrir ungt fólk. Bryndís segir verðlaun sem þessi fyrst og fremst hvetjandi ekki síst með tilliti til þess að hún hafi verið mjög stressuð fyrir viðtökum bókarinnar. „Málið er að ég tileinka þessa bók frænda mínum og frænku sem ég hitti aldrei. Hann var Hafnfirðingur sem þótti sérlundaður á sínum tíma en var þó að mörgu leyti á undan sinni samtíð. Hann var uppfinningamaður, pældi í sjálfbærni og lífrænni ræktun og var mikill friðarsinni. Fyrir vikið þótti karlinn vera hálfgerður brandari og þangað sæki ég titil bókarinnar. Frænka mín fór ung af landi brott eftir að hafa kynnst dáta og lifði það sem eftir var ævinnar í Bandaríkjunum og reyndar sem vottur Jehóva. Þetta fólk sem ég þekkti aldrei er mikilvægt í þessari bók og því er hún tileinkuð þeim. Minningar þeirra vegna hafa þessar góðu viðtökur skipt mig miklu máli. Það sem Fjöruverðlaunin gera fyrir mig er fyrst og fremst að veita mér ákveðna ró og kyrrð til þess að halda áfram að skrifa og fyrir það er ég ákaflega þakklát.“ Úr umsögnum dómnefnda: Lífið er enginn dans á rósum í ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Ljóðin lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn. Ljóðmælandi þráir ástina og er haldinn ástarfíkn. Hún fær stöðugt viðvörunarmerki um að maðurinn sem hún hefur ákveðið að fá með sína „sambúð hvað sem það kostaði“ sé ofbeldismaður. Hún ber kennsl á viðvörunarmerkin en hunsar þau og tapar sér í ástarfíkn. Ljóðmælandi skoðar ferlið úr fjarlægð með írónískum augum, hissa á því að hafa ekki losað sig úr þessum ástarfjötrum fyrr og spyr „kannski vissi ég ekki hvar dyrnar voru?“ Bókin Ofbeldi á heimili – með augum barna í ritstjórn Guðrúnar Kristinsdóttur er yfirgripsmikil rannsókn á upplifun barna á heimilisofbeldi. Höfundar nálgast efnið frá mörgum sjónarhornum og sýna fræðilegan metnað með því að byggja rannsóknina á breiðum grunni megindlegrar og eigindlegrar aðferðafræði. Bókin samþættir niðurstöður víðtækrar könnunar á þekkingu barna á heimilisofbeldi, viðtöl við börn og mæður þeirra sem búið hafa við ofbeldi á heimilum, ásamt greiningu á orðræðu fjölmiðla um heimilisofbeldi. Áhersla er lögð á börn sem áhrifavalda í eigin lífi, frekar en óvirka þolendur, og upplifanir þeirra settar í brennidepil. Þannig er rofin sú þögn sem hefur ríkt um tilfinningar barna sem verða fórnarlömb ofbeldis á heimilum. Bókin Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur er vel skrifuð og skemmtileg, söguþráður frumlegur og listilega fléttaður. Frásagnarstíllinn er ærslafullur og myndrænn og lestrarupplifunin á stundum eins og horft sé á kvikmynd. Frásögnin er margradda og þær segja grípandi sögu sem vekur sterka samlíðan með persónunum. Helsti styrkur sögunnar er hvernig hún fjallar um samskipti kynslóða og dregur upp flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, persónur sem eru margbrotið og áhugavert fólk. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er óvenjuleg innsýn í líf þeirra. Sagan fjallar um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig. Dómnefnd telur að Hafnfirðingabrandarinn hafi alla burði til að verða sígild unglingabók. Menning Mest lesið Þéna töluvert þrátt fyrir að vera ekki til Lífið Sigurjón minnist David Lynch: „Jonni, við verðum að gera eitthvað fyrir Ísland“ Bíó og sjónvarp Heill hljóðheimur Hildar fer afturábak Tónlist Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Krakkatían: Grænland, galdrakarl og Greppikló Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Einstakur bíll sem erfitt gæti verið að toppa Lífið samstarf Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt í níunda skipti við hátíðlega athöfn í Höfða síðdegis í gær. Tilgangur Fjöruverðlaunanna er að stuðla að aukinni kynningu á ritverkum kvenna og hvetja konur í rithöfundastétt til dáða. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramikegg eftir listakonuna Koggu en að þessu sinni steig frú Vigdís Finnbogadóttir á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði. Veitt eru verðlaun í þremur flokkum; fagurbókmenntum, barna- og unglingabókmenntum og fræðibóka og rita almenns eðlis. Sigurvegari í flokki fagurbókmennta að þessu sinni er Elísabet Jökulsdóttir fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Ljóð Elísabetar lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn. „Það ríkir bara rosaleg gleði og hamingja með þessi verðlaun enda voru þetta allt góðar bækur sem voru tilnefndar í ár,“ segir Elísabet, sem vann reyndar einnig til Fjöruverðlauna árið 2007. „Þessi viðurkenning skiptir máli og þá ekki síst upp á umræðuna um það sem ég er að takast á við í mínum ljóðum. Margir upplifa þessi mál sem hafa verið svo mikið tabú í samfélaginu svo lengi og ef þetta hjálpar í þeirri umræðu þá gleður það mig. Ég gæti reyndar gefið út annað bindi af Ufsakletti og á líka til efni í sambúðina. Mig langar til þess að vinna með þessa innilokun og ofbeldið. Ég vaknaði reyndar á jóladag með hugmynd að bók um mennskuna og hún á að vera svona doðrantur eins og strákarnir eru alltaf að senda frá sér. Málið er að ég ætla að láta þetta vinna með mér og ég er mjög stolt af þessum verðlaunum. Það er athyglisvert að í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fara verðlaunin til bókar þar sem tekist er á við mál sem skyld eru Ufsakletti Elísabetar. Ofbeldi á heimili – með augum barna, ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir. Guðrún segir Fjöruverðlaunin vera myndarlegt framtak og þar sem hér sé fjallað um efni sem snerti ekki síst konur hafi þessi verðlaun sérstaka þýðingu. „Við höfum verið að fá ágætis viðbrögð og vonum að bókin verði notuð í háskólakennslu innan skamms auk þess sem við erum að senda mikilvæg skilaboð inn í menntakerfið í heild. Að skoða heimilisofbeldi út frá sjónarhorni barna er frumkvöðlastarf á Íslandi og við teljum mikilvægt að koma því á framfæri við fagstéttir á borð við félagsþjónustu og lögreglu að tala við börnin á vettvangi og huga að þeim sérstaklega.“ Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur hlýtur Fjöruverðlaunin í ár í flokki barna- og unglingabókmennta. Þar er einnig m.a. annars unnið með sjónarhorn barnsins, fjallað um samskipti kynslóða og heimur eldri borgara gerður áhugaverður og spennandi fyrir ungt fólk. Bryndís segir verðlaun sem þessi fyrst og fremst hvetjandi ekki síst með tilliti til þess að hún hafi verið mjög stressuð fyrir viðtökum bókarinnar. „Málið er að ég tileinka þessa bók frænda mínum og frænku sem ég hitti aldrei. Hann var Hafnfirðingur sem þótti sérlundaður á sínum tíma en var þó að mörgu leyti á undan sinni samtíð. Hann var uppfinningamaður, pældi í sjálfbærni og lífrænni ræktun og var mikill friðarsinni. Fyrir vikið þótti karlinn vera hálfgerður brandari og þangað sæki ég titil bókarinnar. Frænka mín fór ung af landi brott eftir að hafa kynnst dáta og lifði það sem eftir var ævinnar í Bandaríkjunum og reyndar sem vottur Jehóva. Þetta fólk sem ég þekkti aldrei er mikilvægt í þessari bók og því er hún tileinkuð þeim. Minningar þeirra vegna hafa þessar góðu viðtökur skipt mig miklu máli. Það sem Fjöruverðlaunin gera fyrir mig er fyrst og fremst að veita mér ákveðna ró og kyrrð til þess að halda áfram að skrifa og fyrir það er ég ákaflega þakklát.“ Úr umsögnum dómnefnda: Lífið er enginn dans á rósum í ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Ljóðin lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn. Ljóðmælandi þráir ástina og er haldinn ástarfíkn. Hún fær stöðugt viðvörunarmerki um að maðurinn sem hún hefur ákveðið að fá með sína „sambúð hvað sem það kostaði“ sé ofbeldismaður. Hún ber kennsl á viðvörunarmerkin en hunsar þau og tapar sér í ástarfíkn. Ljóðmælandi skoðar ferlið úr fjarlægð með írónískum augum, hissa á því að hafa ekki losað sig úr þessum ástarfjötrum fyrr og spyr „kannski vissi ég ekki hvar dyrnar voru?“ Bókin Ofbeldi á heimili – með augum barna í ritstjórn Guðrúnar Kristinsdóttur er yfirgripsmikil rannsókn á upplifun barna á heimilisofbeldi. Höfundar nálgast efnið frá mörgum sjónarhornum og sýna fræðilegan metnað með því að byggja rannsóknina á breiðum grunni megindlegrar og eigindlegrar aðferðafræði. Bókin samþættir niðurstöður víðtækrar könnunar á þekkingu barna á heimilisofbeldi, viðtöl við börn og mæður þeirra sem búið hafa við ofbeldi á heimilum, ásamt greiningu á orðræðu fjölmiðla um heimilisofbeldi. Áhersla er lögð á börn sem áhrifavalda í eigin lífi, frekar en óvirka þolendur, og upplifanir þeirra settar í brennidepil. Þannig er rofin sú þögn sem hefur ríkt um tilfinningar barna sem verða fórnarlömb ofbeldis á heimilum. Bókin Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur er vel skrifuð og skemmtileg, söguþráður frumlegur og listilega fléttaður. Frásagnarstíllinn er ærslafullur og myndrænn og lestrarupplifunin á stundum eins og horft sé á kvikmynd. Frásögnin er margradda og þær segja grípandi sögu sem vekur sterka samlíðan með persónunum. Helsti styrkur sögunnar er hvernig hún fjallar um samskipti kynslóða og dregur upp flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, persónur sem eru margbrotið og áhugavert fólk. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er óvenjuleg innsýn í líf þeirra. Sagan fjallar um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig. Dómnefnd telur að Hafnfirðingabrandarinn hafi alla burði til að verða sígild unglingabók.
Menning Mest lesið Þéna töluvert þrátt fyrir að vera ekki til Lífið Sigurjón minnist David Lynch: „Jonni, við verðum að gera eitthvað fyrir Ísland“ Bíó og sjónvarp Heill hljóðheimur Hildar fer afturábak Tónlist Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Krakkatían: Grænland, galdrakarl og Greppikló Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Einstakur bíll sem erfitt gæti verið að toppa Lífið samstarf Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira